Valur fór illa með HK, 5:0, er liðin mættust í 11. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í dag.
Valsmenn eru nú í öðru sæti með 26 stig, tveimur minna en Víkingur úr Reykjavík sem á heimaleik gegn Fram á eftir. HK er áfram með 13 stig í sjötta sæti deildarinnar.
Strax á fyrstu mínútu leiksins fékk HK-ingurinn Eyþór Aron Wöhler hörkufæri er hann fékk háa sendingu frá Birki Val Jónssyni en Frederik Schram, markvörður Vals, gerði sig stórann í marki Vals og varði skotið. HK-ingar áttu nokkuð góðar mínútur eftir það en fljótlega fóru Valsmenn að stjórna leiknum meira og meira.
Til tíðinda tók á 20. mínútu leiksins en þá fékk Tryggi Hrafn Haraldsson boltann frá Aroni Jóhannssyni og var með hann við hliðarlínuna vinstra megin. Þaðan keyrði hann á utanverðan teiginn, fór framhjá varnarmönnum HK, og smellti boltanum í fjærhornið neðarlega. Laglegt mark og Valsmenn komnir yfir, 1:0.
HK-ingurinn Atli Arnarsson fékk svo dúndurfæri er boltinn var alveg tíaður upp fyrir hann í miðjum teignum, en skot hans fór langt framhjá.
HK-ingar náðu ekki að nýta góðu færin sín sem þýddi að Valsmenn fóru með 1:0-forystu til búningsklefa.
Valur gerði svo út um leikinn á fyrsta korterinu í seinni hálfleik en þá léku gestirnir frá Hlíðarenda á als oddi. Á 52. mínútu tvöfaldaði Aron Jóhannsson forystu Valsmanna en þá fékk hann sendingu frá Adam Ægi Pálssyni og stýrði boltanum í opið markið, 2:0 Valsmönnum í vil.
Það var aftur komið að Tryggva á 59. mínútu en þá skoraði hann beint úr aukaspyrnu. Boltinn flaug yfir allan veginn og endaði á nær, þar sem er spurning hvort að Arnar Freyr Ólafsson markvörður HK hefði getað gert betur.
HK-ingar voru alveg slegnir út af laginu því mínútu síðari fjórfaldaði Daninn Patrick Pedersen forystu Valsmanna með sínu fyrsta marki á tímabilinu, en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Þá fór skot/sending Adams Ægis beint í Pedersen sem stýrði boltanum inn.
Vont varð enn verra hjá Kópavogsliðinu en á 74. mínútu kom Pedersen Val í 5:0. Þá átti hann gott samspil við Tryggva Hrafn, fékk boltann aftur frá kantmanninum og stýrði honum í opið markið.
Fleiri urðu mörkin ekki og sannfærandi sigur Valsmanna raunin.
HK fær Breiðablik í heimsókn í Kópavogsslag í næstu umferð, eftir landsleikjahlé. Valur fer til Vestmannaeyja og mætir ÍBV.
M-einkunnagjöf leiksins og dómaraeinkunni verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.