Valur vann 5:0-heimasigur á nýliðum Tindastóls í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld.
Valur er því enn með þriggja stiga forskot á Breiðablik á toppi deildarinnar, en með sigrinum fóru meistararnir upp í 16 stig. Tindastóll er enn í áttunda sæti með átta stig.
Tindastóll fékk fyrsta færi leiksins á 3. mínútu, en Melissa Garcia skaut rétt yfir úr teignum, eftir fyrirgjöf frá Aldísi Maríu Jóhannsdóttur.
Aldís var aftur í sviðljósinu á 24. mínútu, en því miður fyrir hana var það þegar hún gaf víti á afar klaufalegan hátt. Hún missti þá boltann til Bryndísar Örnu Níelsdóttur og tók hana síðan niður í teignum. Bryndís fór sjálf á punktinn og skoraði fyrsta mark leiksins af öryggi.
Tíu mínútum síðar tvöfaldaði Þórdís Elva Ágústsdóttir forskot Valskvenna með góðri afgreiðslu í teignum eftir sendingu frá Láru Kristínu Pedersen.
Valskonur voru ekki hættar og Bryndís Arna var ekki hætt, því framherjinn skoraði þriðja mark Vals á 42. mínútu með góðu skoti í slá og inn eftir sendingu frá Haley Berg, eftir góðan sprett hjá Ásdísi Karen Halldórsdóttur.
Bryndís var ekki sátt með tvö mörk, því hún fullkomnaði þrennuna með fjórða marki Vals strax í upphafi seinni hálfleiks með góðri afgreiðslu í teignum eftir sendingu frá Ásdísi.
Næstu mínútur voru mjög rólegar og var leikurinn í raun rólegur fram að 86. mínútu þegar Fanndís Friðriksdóttir skoraði fimmta mark Vals eftir sendingu frá þrennudrottningunni Bryndísi. Fanndís var að leika sinn fyrsta leik í tvö ár og frá því hún sleit krossband og átti barn.
Það reyndist síðasta markverða sem gerðist í leiknum og Valskonur fögnuðu afar sannfærandi sigri.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.