Breiðablik náði í mikilvægan sigur þegar liðið sigraði ÍBV 3:0 í 8. umferð í Bestu deild kvenna á Hásteinsvelli í kvöld.
Birta Georgsdóttir var í stóru hlutverki hjá Blikum en hún skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og átti frábæran leik fyrir sitt lið.
„Við töluðum um það fyrir leikinn að mæta alveg dýrvitlausar og hafa stemninguna sem hefur verið undanfarið hjá okkur. Mér fannst það skila sér inn í okkar spilamennsku i dag,“ sagði Birta þegar mbl.is gaf sig á tal við hana.
Blikaliðinu hefur gengið vel það sem að af er sumri en liðið er í öðru sæti með 16 stig eftir átta leiki.
„Skiptir máli upp á framhaldið að byggja ofan á þetta.“
Birta kom inn í liðið eftir að hafa verið á bekknum í síðasta leik á móti Stjörnunni og ætlaði greinilega að nýta það tækifæri sem henni var gefið.
„Það er geggjað að vera komin á blað og kominn tími til. Góð byrjun.“
Eftir leikinn er Breiðablik eins og áður sagði í öðru sætinu, á eftir Valskonum og það eina sem skilur liðin að er fyrsti leikur sumarsins þar sem að liðið tapaði á útivelli á móti Val 1:0.
„Þetta er góð byrjun en það þýðir ekkert að hætta núna. Við þurfum að gjöra svo vel að gefa í af því að við erum í rauninni enn þá að elta þannig að við þurfum að halda áfram. Við þurfum að sýna það í næstu leikjum að við getum alveg verið þarna á toppnum.“
„Mér fannst það mjög sterkt að koma hingað og vinna með þremur mörkum,“ sagði Birta að lokum áður en að fréttamaður óskaði hennar góðrar ferðar heim.
Næsti leikur liðsins er í Mjólkurbikarnum þar sem að liðið er í átta liða úrslitum og mætir liðið Þrótti Reykjavík á útivelli 15. júní næstkomandi.