Hef aldrei orðið eins móðguð á ævinni

Fanndís í leiknum í kvöld.
Fanndís í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líður fáránlega vel,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún var nýbúin að skora fimmta mark Vals í 5:0-heimasigri liðsins á Tindastóli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Fanndís hefur undanfarna 28 mánuði eignast tvö börn og slitið krossband í hné. Hún varð tveggja barna móðir 1. mars síðastliðin og var mætt að spila og skora í efstu deild rúmum þremur mánuðum síðar.

„Ég er búin að vera með þennan leik í hausnum frá því 1. mars. Ég horfði alltaf á þennan leik sem leikinn sem ég gæti komið til baka í, ef allt myndi ganga upp. Það hefur allt gengið eins og í sögu og þetta kom ekkert á óvart,“ sagði Fanndís.

Fanndís Friðriksdóttir er mætt aftur á fótboltavöllinn.
Fanndís Friðriksdóttir er mætt aftur á fótboltavöllinn. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hún hló svo og sagði já þegar ofanritaður spurði hvort 1. mars hafi verið dagurinn sem hún varð tveggja barna móðir. Fanndís naut þess að spila í kvöld.

„Það var gaman að spila. Ég mátti fá 20 mínútur í kvöld samkvæmt sjúkraþjálfara og það var út af hnénu. Vonandi getur maður byggt ofan á það og sett pressu á stelpurnar. Ég tek einn dag í einu og ég er í fótbolta því mér finnst þetta svo skemmtilegt.“

Hún viðurkennir að það hafi verið þrautaganga að mæta aftur á völlinn eftir slæm meiðsli og barnsburð, en allt hafi gengið að óskum. Fanndís tók það aldrei í mál að leggja skóna á hilluna.

Bryndís Arna Níelsdóttir og Fanndís fagna marki Fanndísar, sem kom …
Bryndís Arna Níelsdóttir og Fanndís fagna marki Fanndísar, sem kom eftir stoðsendingu Bryndísar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta er búið að vera erfitt og það er mikil vinna sem fer í að ná sér eftir aðgerð eftir krossbandsslit og svo eftir að hafa átt barn. En ég hef verið heppin og það hefur allt gengið vel.

Ég hef aldrei orðið eins móðguð á ævinni eins og þegar fólk spurði mig hvort ég ætlaði aftur í fótbolta á meðan ég var ólétt. Ég hvæsti á fólk og sagði já. Mér fannst þetta fáránleg spurning. Ég sá enga ástæðu til að hætta,“ sagði hún lauflétt.

Fanndís skoraði markið eftir að Bryndís Arna Níelsdóttir, sem skoraði þrennu í leiknum, gaf á hana í teignum. „Ég gólaði á Bryndísi. Hún var búin að skora þrjú og þurfti ekki að skora meira. Það var eins gott að hún gaf hann,“ sagði Fanndís hlæjandi.

Fanndís ætlar sér meira í sumar, enda nóg eftir af tímabilinu. „Ég má spila 90 mínútur þegar ég er komin í nógu gott stand og þegar Pétur sér ástæðu til að breyta einhverju. Eins og staðan er núna er liðið að spila gríðarlega vel og það er engin ástæða til að breyta neinu. Þá er fínt að geta komið inn á. Ég er ekki að setja neina pressu á neitt, en það kemur,“ sagði Fanndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert