FH-ingurinn Esther Rós Arnarsdóttir var að vonum sátt þegar mbl.is talaði við hana eftir gífurlega sterkan 2:0-útisigur á Stjörnunni í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Esther kom FH-ingum í 2:0 á 12. mínútu leiksins, sem reyndist lokamarkið. Þetta er annað mark hennar í Bestu deildinni á tímabilinu.
„Tilfinningin er mjög góð, eiginlega alveg rosalega góð. Það gengur mjög vel hjá okkur núna. Það er alltaf gaman að skora, það gefur manni örlítið meira sjálfstraust,“ sagði Esther um sigurinn og að skora í leiknum.
FH-liðið spilaði allan leikinn af miklum aga. Í fyrri hálfleik skapaði FH sér fullt af færum og í síðari hálfleik gerði liðið vel í að drepa leikinn niður og fékk fá færi á sig.
„Planið okkar er alltaf að pressa mjög vel. Við gerum það yfirleitt af krafti og reynum bara að halda því allan leikinn. Við erum líka með stóran hóp þannig að við getum komið sterkum leikmönnum inn.“
FH er í fjórða sæti með 13 stig, sem er framar vonum flestra en meðal annars var FH-liðinu spáð neðsta sæti í spá Íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is. Esther segir sig og liðsfélaga sína samt alltaf hafa haft þessa trú á sér, og að þær ætli sér að vinna næst leik, sem er gegn ÍBV í 8-liða úrslitum bikarsins.
„Við höfum mikla trú á okkur sjálfum og erum með okkar markmið, þannig vonandi heldur þetta bara áfram svona.
Við reynum bara okkar besta að vinna leikinn gegn ÍBV og komast áfram í undanúrslitin. Það er líka ansi gaman,“ sagði Esther að lokum.