„Þetta er grautfúlt,“ sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, eftir 0:5-tap liðsins á útivelli gegn Val í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Tindastóll byrjaði leikinn vel, en eftir að Valur komst í 1:0 á 25. mínútu með marki úr víti varð leikurinn erfiður fyrir Skagfirðinga.
„Við byrjuðum leikinn virkilega vel og vorum ógnandi og fá þær víti og ég er mjög ósátt við þann dóm. Við missum þetta niður og það er svekkjandi að við héldum ekki betur í okkar leikplan. Valur gerði vel en ég er ekki sátt við okkur.
Við fengum færi í upphafi leiks og við hefðum getað sett tóninn með því að nýta þau. Ég er ánægð með byrjunina á leiknum en ég er ekki hoppandi ánægð með þennan leik, þótt við hættum aldrei og gáfumst ekki upp,“ sagði Bryndís.
Hún var ánægð með unga leikmenn Tindastóls sem komu inn á í seinni hálfleik. „Leikmennirnir sem komu inn á gerðu vel. Það eru tvær ungar og efnilegar og ég er virkilega ánægð með þeirra innkomu. Þær eiga eftir að vera mikilvægar í framtíðinni.“
Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði þrennu fyrir Val, en fyrsta markið var úr víti sem Bryndís Rut var allt annað en sátt við. „Mér fannst það soft. Mín skoðun er sú að hún lætur sig detta og hún gerði það nokkrum sinnum í leiknum,“ sagði fyrirliðinn ósáttur.
Tindastóll, sem er nýliði í deildinni, er í áttunda sæti með átta stig, einu stigi fyrir ofan ÍBV og fallsæti. „Þetta var erfið byrjun, því við fengum þrjá heimaleiki í röð sem við vildum gera betur í. Við náðum svo í tvo góða sigra og tvö góð jafntefli og við getum verið ágætlega sátt með þetta hingað til,“ sagði Bryndís.