Komum ekki tuðrunni í netið

Helena Jónsdóttir, liðskona Guðnýjar, í leiknum í dag.
Helena Jónsdóttir, liðskona Guðnýjar, í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Breiðabliki í 8. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Enduðu leikar með þriggja marka mun Blikum í vil. 

ÍBV var fyrir leikinn í næstneðsta sætinu með sjö stig eftir sjö leiki og hafði ekki unnið leik síðan 15. maí síðastliðinn þegar liðið vann Þrótt Reykjavík á heimavelli. Mbl.is gaf sig á tal við Guðnýju Geirsdóttur, markmann ÍBV, sem þrátt fyrir þriggja marka leik átti góðan leik í marki heimakvenna og sá til þess að ekki fór verr.

„Ég eiginlega veit ekki, það er ekki eins og við eigum ömurlegan leik eftir ömurlegan leik. Við náum bara ekki að koma tuðrunni í netið. Þurfum bara að reyna að komast í gegnum það,“ sagði Guðný þegar að hún var spurð að því hvað hún teldi vera ástæðuna bak við gengi liðsins.

Næsti leikur liðsins er í bikarkeppninni þann 15.júní næstkomandi á móti FH á heimavelli. Sigur í þeim leik fleytir þeim í fjögurra liða úrslitin.

„Við þurfum að mæta dýrvitlausar í næsta leik, það er bara þannig. Ýmislegt sem þarf að laga en lítill tími til þess,“ sagði Guðný markmaður sem var óvenju stuttorð, skiljanlega svekkt eftir úrslit kvöldsins.

Guðný Geirsdóttir.
Guðný Geirsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert