Óvæntur FH-sigur í Garðabæ

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir úr Stjörnunni reynir skot að marki FH …
Aníta Ýr Þorvaldsdóttir úr Stjörnunni reynir skot að marki FH í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH vann óvæntan útisigur á Stjörnunni, 2:0, í áttundu umferð kvenna í knattspyrnu á Stjörnuvellinum í Garðabæ í kvöld.

FH er nú komið í fjórða sæti deildarinnar með 13 stig en Stjarnan er í sjötta sæti með 11, átta stigum á eftir toppliði Vals. 

Byrjun leiksins var vægast sagt óvænt en eftir 12 mínútna leik voru gestirnir úr Hafnarfirði komnir tveimur mörkum yfir.

Á sjöttu mínútu fékk Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir boltann frá Mackenzie, sem hafði keyrt inn á teiginn frá vinstri, tók frábærlega á móti honum og renndi svo knettinum fram hjá Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving, markveðri Stjörnunnar, 1:0. 

Sex mínútum síðar var Mackenzie aftur með boltann, nú hægra megin, og sendi hann á Esther Rósu Arnarsdóttur sem tók á móti honum og renndi honum einnig í netið, 2:0, og var þetta heldur betur óvænt staða í Garðabænum. 

Stjörnukonur hresstust nokkuð eftir það en FH-ingar héldu sóknarmönnum Stjörnuliðsins að mestu leyti rólegum, sem gerði það að verkum að Hafnfirðingar fóru með tveggja marka forystu sína til búningsklefa. 

Fátt var um fína drætti í síðari hálfleik og vörðust FH-ingar af mikilli fagmennsku. Stjörnukonur fengu fá færi og engin almennileg. Því lauk leiknum með gífurlega sterkum 2:0-sigri FH-inga sem eru nú komnir fyrir ofan Stjörnuna í töflunni. 

Stjarnan á útileik gegn Selfossi í næsta leik sínum en FH fær ÍBV í heimsókn í næsta leik sínum.

Stjarnan 0:2 FH opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert