„Ég er ótrúlega ánægð með þessi þrjú stig sem eru mjög mikilvæg,“ sagði Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkurkvenna eftir 2:1 sigur á Þrótti í Laugardalnum þegar leikið var í 8. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.
„Við ætluðum að vera svolítið þéttar til baka því Þróttarar eru svolítið hættulegir fram á við, reyna svo að sækja og mér fannst við berjast eins og ljón í þessum leik. Þær áttu sín færi en við áttum líka okkar færi svo ég er stolt af þessari baráttur hjá okkur.“
Kristrún meiddist á 79. mínútu og varð að fara af velli en það var ekki síður erfitt fyrir hana en spila leikinn. „Mér fannst mjög erfitt að horfa á leikinn af hliðarlínunni, það var mjög stressandi því Þróttarar voru mjög góðir þrátt fyrir að vera einum manni færri en það var líka skrekkur í okkur því við fórum í að verja stigin þrjú, sem er jafnvel alveg eðlilegt en við börðumst fyrir þeim og unnum þau verðskuldað.“
Með sigrinum færðust Keflavíkurkonur bara einu sæti ofar en eru samt með 11 stig, tveimur minna en Þróttur í þriðja sætinu svo að stigin voru mjög mikilvæg. „Fyrir okkur er sigurinn mikilvæg líflína og gríðarlega mikilvægur sigur, frábært uppá framhaldið,“ sagði fyrirliðinn.
Alma Rós Magnúsdóttir átti fínan leik fyrir Keflavík – hefur leikið allan sinn feril með Keflavík en hún varð 15 ára í janúar. Vissulega ekki sú stærsta og sterkasta á vellinum en bætti það rækilega upp með tækni og að lesa leikinn. „Ég hef spilað einhverja leiki í efstu deild, eiginlega alla. Mér fannst leikurinn skemmtilegur, líka stressandi þegar við fórum að reyna að halda forskotinu en þessi þrjú stig og færa okkur aðeins ofar í deildina,“ sagði Alma Rós eftir leikinn.