„Ég held að við höfum ekki átt okkar besta leik, sérstaklega ekki í byrjun leiks en við jöfnuðum það út síðustu tuttugu mínúturnar þegar við fengum færi og sýndum styrk okkar en við hefðum átt að vera þannig frá byrjun leiksins,“ sagði Mikenna McManus varnarjaxl hjá Þrótti eftir 1:2-tap fyrir Keflavík þegar liðin mættust í 8. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta í Laugardal í kvöld.
Fyrirliði Þróttar fékk rautt spjald á 54. mínútu en það sló síður en svo á baráttugleðina hjá Þrótti og Mikenna tók undir það. „Ég held að það sýni karakterinn í liðinu, við viljum fara þarna út og vinna leikinn en það vantaði eldmóðinn í byrjun. Eitt af markmiðum okkar er að vera í öðru af efstu tveimur sætunum og ég held að við höfum hæfileikana til þess og getuna en við verðum þá að vera einbeittar, sérstaklega í svona leikjum en aðallega að hafa trú að við getum verið í baráttunni við topp deildarinnar.“
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttarkvenna, var svekktur með úrslitin en sá þó ljósa punkta í baráttunni einum leikmanni færri. „Ég er svekktur, við vissum hvernig liði við vorum að fara mæta og vissum að þyrftum að vera þolinmóð með boltann. Við áttum okkar færi og liðið barðist alveg til loka, ég hrósa þeim fyrir það en það var erfitt að vera komin tveimur mörkum undir og vera leikmanni færri. Ef við hefðum skorað markið okkar aðeins fyrr hefði þetta getað orðið áhugaverður leikur en við fengum færi til að koma inn jöfnunarmarki og það var frábært,“ sagði þjálfarinn eftir leikinn.