„Það eru viðræður í gangi. Eini aðilinn sem ég er að tala við er Lyngby,“ sagði Alfreð Finnbogason, sóknarmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.
Alfreð gerði í september síðastliðnum samning við Lyngby sem var í gildi út nýafstaðið tímabil. Hann er því samningslaus en vill gjarna halda kyrru fyrir hjá Íslendingaliðinu, sem bjargaði sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni með ótrúlegum hætti.
„Það var mikið í gangi þar, við vissum ekki alveg hvað við vorum að plana fyrir, efstu eða næstefstu deild. Þannig að við ákváðum bara að setjast niður eftir tímabilið.
Þessar viðræður eru í gangi og þetta lítur bara vel út. Ég á ekki von á neinu öðru en að það eigi eftir að ganga vel,“ bætti hann við.
Alfreð kvaðst ekki eiga í viðræðum við nein önnur félög.
„Ekki eins og er. Það þyrfti að koma eitthvað mjög gott til að maður myndi breyta til núna.
Maður er kominn með fjölskyldu og þeir þættir eru gríðarlega mikilvægir núna. Því er staðan þannig að maður myndi kjósa að vera áfram á sama stað,“ útskýrði hann.
Spurður út í upplifun sína af mögnuðu afreki Lyngby sagði Alfreð:
„Þetta var náttúrlega ótrúlegt að taka þátt í þessu. Þetta leit svo hrikalega illa út á tímabili að það var einhvern veginn erfitt að trúa því að þetta væri hægt. Allir í kringum mann og margir sem maður talaði við voru á sama máli: „Þetta er búið, þið eruð hvort eð er fallnir.“
En maður trúði allan tímann og Freysi [Freyr Alexandersson þjálfari] var að byggja upp trú hjá mönnum. Þegar við skoðuðum gögnin úr leikjunum og hvernig við vorum að spila kom í ljós að við værum oft að tapa leikjum með einu marki og seint í leikjunum.“
Hann sagðist stoltur af afrekinu, sem hafi þó tekið mikið á.
„Þetta var mjög erfitt og það er rosalega leiðinlegt að fara á tólfta fundinn í röð þar sem þú vannst ekki leikinn og reyna að finna eitthvað jákvætt.
Þetta er krefjandi og líklega mest krefjandi tímabil sem leikmennirnir og þjálfarateymið sem var þarna hefur upplifað.
En að enda þetta svona er náttúrlega eitthvað sem maður er hrikalega stoltur af að hafa verið hluti af, og er ánægður að hafa komist í gegnum þetta og komið út sem sigurvegari úr þessu.“