Alfreð Finnbogason, sóknarmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það óumflýjanlegt að einhverjar breytingar verði á liðinu nú þegar nýr landsliðsþjálfari, Åge Hareide, sé kominn í brúna.
„Já, ekki spurning, það verða breytingar. Það hafa þegar orðið breytingar á hópnum og svo mun hann koma sínum breytingum á framfæri við liðið, sem er bara mjög eðlilegt.
Hann er með sínar pælingar um fótbolta og hefur verið mjög árangursríkur sem þjálfari á mörgum stöðum,“ sagði Alfreð í samtali við mbl.is.
Ísland á fyrir höndum mikilvægan leik gegn Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Leikurinn fer fram 17. júní á Laugardalsvelli og kæmi sigur sér afskaplega vel fyrir íslenska liðið í fyrirséðri baráttu um annað sæti J-riðils.
„Slóvakía vann Bosníu, sem var sjálfsagt gott fyrir okkur eftir að við töpuðum á móti Bosníu. Við getum núllað það út núna með því að vinna þennan leik.
Við vitum hverju við megum búast við frá Slóvakíu. Þetta eru tæknilega góðir leikmenn og þeir pressa oft og tíðum mjög hátt, þannig að við erum með plön fyrir það sem koma skal.
Maður veit náttúrlega ekki nákvæmlega hvernig þeir koma út í leikinn en við erum allavega vel undirbúnir, sama hvað gerist,“ sagði hann um leikinn gegn Slóvakíu.
Þremur dögum síðar, þann 20. júní, kemur Portúgal svo í heimsókn á Laugardalsvöll. Alfreð sagði ekki mikið búið að ræða mögulegt leikplan fyrir síðari leikinn.
„Við höfum ekki rætt það mikið. Allur fókus er á Slóvakíuleiknum eins og eðlilegt er. Við munum bara fara okkar ferð og klára okkur í þessum Slóvakíuleik. Svo sjáum við hvernig staðan er á liðinu eftir þann leik.“