Enn er hægt að fá miða á leik Íslands og Portúgals en mótsmiðasala hefst á ný í hádeginu á morgun þar sem hægt verður að fá miða á alla fimm heimaleiki íslenska knattspyrnulandsliðs karla í undankeppni EM 2024.
Í tilkynningu frá KSÍ kemur fram að „fyrir hverja keppni er ákveðinn fjöldi miða tekinn frá fyrir ýmsa samstarfsaðila (innlenda og erlenda) en í mörgum tilfellum eru þeir ekki nýttir til fulls.
Nú þegar aðeins eru fjórir dagar í fyrsta heimaleik er ljóst að svigrúm hefur skapast til að selja hluta af þessum miðum og hefur KSÍ því ákveðið að opna fyrir sölu á þeim sætum sem eru laus á alla fimm leiki ársins.
Alls er um að ræða rúmlega 200 sæti og verður miðasalan opnuð miðvikudaginn 14. júní kl. 12.00 á Tix.is.“
Það er því enn hægt að sjá Cristiano Ronaldo og aðrar stórstjörnur Portúgals mæta á Laugardalsvöllinn 20. júní.