„Upplifun mín var mjög góð. Sérstaklega náði ég að enda þetta vel,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, kantmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, um fyrsta tímabil sitt með OH Leuven í belgísku A-deildinni.
„Eftir HM-hléið komst ég almennilega í gang. Þó að við í liðinu hefðum viljað vera ofar í töflunni endaði ég tímabilið vel persónulega og komst vel frá því.
Það tók smátíma að koma sér inn í hlutina en ég er mjög ánægður með fyrsta tímabilið,“ bætti Jón Dagur við í samtali við mbl.is.
Honum gekk einkar vel á sínu fyrsta tímabili í Belgíu þar sem hann skoraði 12 mörk í 31 deildarleik og lagði upp þrjú mörk til viðbótar.
Jón Dagur kom til Leuven frá AGF í Danmörku, þar sem hann lék um þriggja ára skeið. Beðinn um að bera saman dönsku úrvalsdeildina og belgísku A-deildina sagði hann:
„Mér finnst belgíska deildin aðeins sókndjarfari, spilið er opnara og skemmtilegra. Svo eru fleiri og stærri lið þarna með skemmtilega velli að fara á. Ég er mjög sáttur þarna.“
Fram undan eru tveir heimaleikir í undankeppni EM 2024 með íslenska landsliðinu. Fyrst kemur Slóvakía í heimsókn 17. júní.
„Mér líst mjög vel á það. Þetta er á þjóðhátíðardaginn á Laugardalsvelli, það er mjög góð stemning í hópnum og allir mjög spenntir fyrir laugardeginum.
Þetta verður hörkuleikur. Bæði lið eru komin til að sækja þrjú stig. Þetta verður vonandi góður leikur og vonandi náum við að vinna þá,“ sagði Jón Dagur.
Þann 20. júní kemur Portúgal svo í heimsókn en einbeitingin er öll á Slóvakíu sem stendur.
„Við byrjum auðvitað á Slóvakíuleiknum og svo þegar hann er búinn förum við að einbeita okkur að Portúgal. Við tökum bara einn leik í einu og við munum fara yfir þá þegar að því kemur,“ sagði hann.
Jón Dagur er ánægður með undirbúninginn undir stjórn nýja landsliðsþjálfarans, Åge Hareide.
„Þetta hefur verið mjög flott. Við erum margir búnir að vera að æfa saman í viku og það komu svo allir saman í gær.
Við erum búnir að ná góðum æfingum og það er góð stemning í hópnum. Þetta hafa verið flottar æfingar, gott tempó og við erum allir klárir,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.