Þarf að skoða samhengið

Stjörnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir skallar boltann burt.
Stjörnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir skallar boltann burt. Kristinn Magnússon

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur þegar mbl.is talaði við hann eftir 2:0-tap gegn FH í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær.

„Það var eitthvað hik á okkur í varnarleiknum, aðallega í 1 á 1 stöðum, í byrjun leiks. Við vorum heldur ekki tilbúin í hlaupin og baráttuna. FH-stelpurnar hlaupa mikið með boltann og við réðum illa við það og lentum oft undir í þeim návígum.

Það var svona byrjunin á þessu svo fáum við einn í gegn, skorum ekki og fáum síðan á okkur tvö mjög veik mörk þar sem við ráðum ekki við sóknarþungann hjá FH og erum undir, þá er alltaf erfitt að koma til baka,“ sagði Kristján um hvað fór úrskeiðis hjá sínu liði í gær.

Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, var skráð í byrjunarlið Stjörnuliðsins í skýrslu KSÍ en hún gat ekki tekið þátt í leiknum. Kristján segir hana hafa verið tæpa fyrir leik og að í upphituninni kom í ljós að hún gæti ekki spilað.

„Hún var tæp fyrir leikinn en við töldum hana geta jafnvel spilað og prufuðum það í upphituninni. En svo sáum við að það gekk ekki upp og þurftum að breyta, en við vorum tilbúin í það. Þetta eru meiðslin sem hún hefur verið í klandri með undanfarin ár, sem er tengt mjöðminni á henni.“

Kristján gerði eina aðra breytingu á liði sínu en kantmaðurinn Aníta Ýr Þorvaldsdóttir kom inn fyrir hægri bakvörðinn Örnu Dís Arnþórsdóttur. Betsy Hassett var svo gert að spila í hægri bakverði, en hún er vanalega á kantinum.

„Pælingin var að hafa Betsy í bakverðinum til þess að spila betur úr pressunni sem FH beitir og mér fannst það ganga bara nokkuð vel,“ sagði Kristján um pælinguna bak við breytinguna.

Stjarnan er í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig, átta minna en topplið Vals, en Stjörnunni var spáð góðu gengi á þessu tímabili. Kristján segir að liðið þurfi að bæta nokkur atriði til að fara að safna fleiri stigum.

„Ég held að við þurfum að átta okkur betur á því í hvaða stöðu við erum. Það vantar upp á marga hluti og sérstaklega kannski að klára færin okkar. Á meðan erum að búa til færin og erum sterkar varnarlega þá er þetta í lagi en við gáfum illa eftir núna í byrjun og gáfum á okkur tvö mörk. Þannig það þarf að skoða þetta allt saman í samhengi,“ sagði Kristján að lokum í samtali við mbl.is.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert