Víkingur úr Reykjavík fór illa með KR, 5:0, í 1. deild kvenna í knattspyrnu á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld.
Sigdís Eva Bárðardóttir kom Víkingum yfir undir lok fyrri hálfleiksins. Selma Dögg Björgvinsdóttir bætti svo við öðru og þriðja marki Víkinga á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik, frá 65.-68. mínútu, og kom Víkingum 3:0 yfir.
Freyja Stefánsdóttir bætti svo við fjórða marki Víkinga á 72. mínútu áður en Ólöf Hildur Tómasdóttir skoraði fimmta og síðasta markið á 81. mínútu.
Víkingskonur eru í efsta sæti 1. deildarinnar með 18 stig eftir sjö leiki. KR er aftur á móti í neðsta sæti með þrjú stig.
Afturelding fór létt með Augnablik, 4:0, er liðin mættust í Mosfellsbænum í kvöld.
Hildur Karítas Gunnarsdóttir fór á kostum í liði Aftureldingar en hún skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins. Hitt markið skoraði Maya Camilie Neal. Afturelding er nú í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig en Augnablik er í næstneðsta sæti með fjögur.
Grindavík vann HK, 5:3, í átta marka leik í Grindavík í kvöld. HK tapaði þar með sínum fyrsta leik á tímabilinu og missti toppsætið í hendur Víkinga.
Fréttin verður uppfærð þegar upplýsingar um markaskorara berast.
Grindavík er í fimmta sæti með 11 stig en HK er nú í öðru sæti með 16 stig, en Kópavogsliðið missti Víkinga fyrir ofan sig.