„Hingað til er upplifunin virkilega góð. Þetta eru 4-5 mánuðir af svokölluðu umskipta ferli,“ sagði Alfons Sampsted, leikmaður hollenska liðsins Twente og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, um fyrstu mánuðina hjá nýju félagi.
„Ég kem inn á miðju tímabili og þeir eru með mótað lið. Svona eftir á að hyggja fékk ég ágætis spiltíma. Ég fæ nokkra leiki frá byrjun, nokkra leiki á bekknum og svo nokkra þar sem ég sit og horfi á.
Heilt yfir líður mér eins og ég sé kominn virkilega vel inn í hlutina og þarna er allt til alls til þess að standa sig í byrjun næsta tímabils,“ bætti Alfons við í samtali við mbl.is.
Til að byrja með kom hann töluvert við sögu hjá Twente í hollensku úrvalsdeildinni en tækifærunum fækkaði undir lok tímabilsins.
Voru spilmínúturnar því færri en hann hefði óskað sér í síðustu leikjunum.
„Þetta var minna en ég vildi en þegar maður horfir á hlutina utan frá, með hlutlausum augum, þá sér maður það að við vinnum 11-12 leiki af síðustu 15, fáum varla á okkur mark og samkeppnisaðilinn minn skoraði tíu mörk á tímabilinu.
Þannig að ef ég lít á þetta utan frá þá skil ég af hverju þeir voru ekki að rótera. Þegar ég kom inn á skilaði ég að mínu mati góðri vinnu.
Síðan vissi ég alveg fyrir fram að þetta yrði ákveðið breytinga ferli. Núna er það bara að mæta út og negla þessa stöðu þegar allir byrja á núlli hjá nýjum þjálfara,“ útskýrði Alfons.
Hann hefur getið sér góðs orðs sem hægri bakvörður og þrátt fyrir að vera fær um að leysa fleiri stöður er Twente ekki að líta til þess.
„Ég er fyrst og fremst hægri bakvörður en ég get náttúrlega leyst vinstri bakvörð. Á tímabili var ég til vara í hafsenti þegar það voru meiðsli. Þetta er bara eins og margir fótboltamenn eru, við getum verið á mörgum stöðum.
Ég kom inn á á kantinn nokkrum sinnum en hægri bakvörður er mín staða, þeir eru ekki að hugsa mig neins staðar annars staðar. Það er bara að negla þá stöðu,“ sagði Alfons ákveðinn.
Hann sagði það sama gilda hjá landsliðinu.
„Ég hugsa nú að hægri bakvörðurinn sé þar sem fókuspunkturinn er. Síðan er náttúrlega alltaf spurning hvort það breytist eitthvað með leikskipulagið.
Að uppleggi er ég hægri bakvörður og skila mínum bestu frammistöðum þar, það væri lógískt að halda mér þar.“
Ísland á fyrir höndum tvo heimaleiki í undankeppni EM 2024, fyrst gegn Slóvakíu á laugardag, þjóðhátíðardaginn 17. júní, og svo gegn Portúgal þremur dögum síðar.