Bryndís Arna Níelsdóttir, framherji Vals, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.
Bryndís fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína með Val gegn Tindastóli á Hlíðarenda í fyrrakvöld. Þar skoraði hún þrennu og lagði auk þess upp fimmta markið í stórsigri Vals, 5:0, á Skagfirðingunum fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
Bryndís Arna varð tvítug í gær, daginn eftir þrennuna sem var hennar fyrsta í efstu deild. Hún er Árbæingur, uppalin í Fylki, og lék sinn fyrsta leik í efstu deild með félaginu aðeins 14 ára gömul árið 2017.
Árið eftir, þegar hún var 15 ára, skoraði hún 12 mörk í 12 leikjum fyrir Fylki þegar Árbæjarliðið vann 1. deildina og var í hópi þeirra markahæstu í deildinni.
Meira um Bryndísi í Morgunblaðinu í dag og þar er einnig úrvalslið 8. umferðar.