Gæti verið lið sem passar vel við okkar

Alfons Sampsted einbeittur á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í …
Alfons Sampsted einbeittur á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og Twente í Hollandi, segir það mikilvægt fyrir landsliðið að gera Laugardalsvöll að gryfju þar sem erfitt reynist fyrir gesti að sækja stig.

Ísland á fyrir höndum tvo heimaleiki í undankeppni EM 2024, fyrst gegn Slóvakíu á laugardag, þjóðhátíðardaginn 17. júní, og svo gegn Portúgal þremur dögum síðar.

„Ég er spenntur og hlakka til að mæta Slóvakíu, sem er lið af ágætis standard. Ég hugsa að þetta gæti verið lið sem passar skemmtilega við okkar lið, við getum búið til skemmtilegan fótboltaleik.

Við erum náttúrlega á heimavelli og þurfum að draga það sem við getum úr íslensku stuðningsmönnunum og orkunni sem við höfum hérna heima. Ég hugsa að þetta verði virkilega gaman,“ sagði Alfons í samtali við mbl.is í dag.

Eigum að búa til gryfju

Spurður hvort íslenska liðið liti á það sem nauðsyn að vinna leikinn gegn Slóvakíu sagði hann:

„Við getum horft á heimaleikina okkar sem stað þar sem við í íslenska liðinu eigum að búa til gryfju. Sama hver mætir hingað þá á það ekki að vera auðvelt, þetta á ekki að vera leikur sem við gefum frá okkur.

Fyrst og fremst snýst þetta um að við vitum okkar leikkerfi og æfum það þangað til við fáum það sem við eigum skilið.

Ef við höldum áfram eins og við höfum gert síðustu daga á æfingum þá held ég að við eigum nokkuð mikið skilið úr þessum leikjum. En þá þarf að vinna vinnuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert