„Ég var vonsvikinn og sár yfir þessu,“ segir Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er mbl.is ræddi við hann um dvöl hans í Rússlandi eftir að innrásarstríð Rússa í Úkraínu hófst.
Hörður lék um fjögurra ára skeið, frá 2018-2022, hjá CSKA Moskvu í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar í fyrra átti Hörður enn nokkra mánuði eftir af samningi sínum hjá Moskvuliðinu, sem hann kláraði og færði sig svo til Grikklands þar sem hann leikur nú með Panathinaikos.
Hörður segir að eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu hafi skrítnir tímar tekið við.
„Þetta gerðist þegar að við í CSKA vorum á undirbúningstímabili í Tyrklandi. Þetta hófst í febrúar og þá vorum við að fara að fljúga til Rússlands og byrja tímabilið aftur.
Þá gerðist þetta og þá brást félagið, landið og fólkið við. Þetta var allt saman undarlegt, margt lokaði og fór í burtu. Margir veitingastaðir hættu með starfsemi. Það var stríð í gangi en ég var ekkert hræddur um mig persónulega, bara aðallega vonsvikinn og sár yfir þessu.
Það er leiðinlegt að þetta sé, af mörgu, meðal annars að eyðileggja fyrir fótboltanum í Rússlandi.“
Hörður Björgvin segir að miklar breytingar hafi orðið á rússneskum fótbolta og að margir í liðinu hafi nýtt sér undanþágu FIFA um að leyfa erlendum leikmönnum að fara frá Rússlandi og í aðrar deildir á lánssamningi.
„Þetta allt saman hefti marga í liðinu og í landinu sjálfu. Það fóru margir leikmenn í burtu og margir nýttu sér undanþágu FIFA að fá leyfi að fara á láni til annars félags. Þannig þetta var mjög skrítinn tími að upplifa.
Þetta verður áhugaverð saga sem ég get sagt börnunum og barnabörnunum, hvað ég fór í gegnum þarna. Ég er helst ánægður með að fjölskyldan mín var bara heima á Íslandi og ég kláraði þetta einn úti, það var auðveldara.
Ég er líka bara sáttur að ég var að renna út úr samningi hjá CSKA fjórum, fimm mánuðum síðar þannig maður kláraði samninginn bara og fór svo heim að leita sér að öryggi og finna nýtt félag,“ sagði Hörður Björgvin.