Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur úrskurðað að úrslit í leik KR og Fylkis í 1. deild kvenna skuli standa óhögguð en KR hafði kært leikinn á þeim forsendum að Fylkir hefði teflt fram ólöglegum leikmanni.
Fylkir vann leik liðanna á Meistaravöllum, 6:0, en KR krafðist þess að félaginu yrði úrskurðaður sigur, 3:0.
Málavextir voru þeir að Birna Kristín Eiríksdóttir, sem upphaflega var skráð í liðsstjórn Fylkis, kom inn á sem varamaður hjá liðinu í leiknum. KR taldi að þar með hefði hún verið ólögleg og leikurinn ætti að dæmast Árbæjarliðinu tapaður.
Fylkir sendi frá sér greinargerð þar sem fram kom að breyting hefði verið gerð á liðinu vegna meiðsla áður en leikurinn hófst þar sem Birna hefði verið færð úr liðsstjórn og í hóp varamanna liðsins. Tilkynnt hefði verið um breytinguna á allan hefðbundinn hátt og dómarinn hefði staðfest breytingu á skriflegu leikskýrslunni, sem hefði hins vegar ekki skilað sér alla leið inn á rafrænu skýrsluna á vef KSÍ.
Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar segir m.a. að ekki verið séð annað en að Fylkir hafi fylgt öllum leiðbeiningum um breytingu á leikskýrslu og úrslitin skuli því standa óhögguð.