„Rooney er dæmigerður enskur þjálfari“

Guðlaugur Victor Pálsson á æfingu með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli …
Guðlaugur Victor Pálsson á æfingu með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Upplifunin er búin að vera fín. Þegar ég kom byrjaði þetta svolítið brösuglega,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, um dvöl sína hjá DC United í bandarísku MLS-deildinni.

Guðlaugur Victor gekk til liðs við DC United síðastliðið sumar, á miðju tímabili vestanhafs.

„Ég var að koma úr undirbúningstímabili og beint í mitt tímabil í deildinni þar sem liðið var neðst. Þetta var erfiður tími, fyrstu tveir mánuðirnir.

En svo fór ég í gott frí og þá var undirbúningstímabilið mjög gott. Við sömdum við nokkra leikmenn og þetta er búið að vera allt annað á þessu tímabili. Á heildina litið hefur þetta verið mjög fínt,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Hjá DC United leikur Guðlaugur Victor undir stjórn ensku goðsagnarinnar Wayne Rooney.

„Hann er mjög flottur. Hann er dæmigerður enskur þjálfari með stórt teymi í kringum sig. Hann er frábær einstaklingur, frábær karakter og hann veit alveg hvað hann er að gera og hvað hann er að tala um. Hann er frábær þjálfari maður á mann,“ sagði hann um Rooney.

Benteke og Klich flottir

Belginn Christian Benteke, sem lék með Liverpool, Aston Villa og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni, og Pólverjinn Mateusz Klich, sem lék með Leeds United í sömu deild, eru þá á meðal samherja Guðlaugs Victors.

„Benteke og Klich eru mjög flottir. Frábærir atvinnumenn sem hafa spilað lengi í ensku úrvalsdeildinni.“

Gott að vera kominn heim

Ísland á fyrir höndum tvo heimaleiki í undankeppni EM 2024, fyrst gegn Slóvakíu á laugardag, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Guðlaugi Victori líst vel á verkefnið.

„Það er bara gott. Við erum ekki búnir að vera neitt rosalega mikið saman allir, þetta eru einhverjir tveir dagar, en við erum búnir að fara aðeins yfir Slóvakíu. Mér líst mjög vel á þetta og líst vel á Laugardalsvöllinn.

Það er gott að vera kominn heim. Það er mikilvægt að við gerum Laugardalsvöllinn að vígi. Þetta er náttúrlega ótrúlega mikilvægur leikur.

Við einbeitum okkur að Slóvakíuleiknum og við vitum að við þurfum að vinna hann og höfum fulla trú á því að við getum það hérna heima,“ sagði hann.

Sjáið það á laugardaginn

Guðlaugur Victor er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst stöður hægri bakvarðar, miðvarðar og miðjumanns.

Spurður hvort hann viti hvar Åge Hareide landsliðsþjálfari hugsi sér að nota Guðlaug Victor hjá landsliðinu sagði hann að lokum:

„Já, ég veit það en ætla samt ekki að segja það við þig akkúrat núna. Við höfum rætt saman og hann er með ákveðið hlutverk fyrir mig sem þið sjáið á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert