Knattspyrnumennirnir Alfreð Finnbogason og Sævar Atli Magnússon eru báðir búnir að skrifa undir nýja samninga við danska félagið Lyngby, að því er danski miðillinn B.T. greinir frá í dag.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Alfreð, sem var með samning út nýafstaðið tímabil, að hann ætti í viðræðum við Lyngby og að hann myndi gjarna vilja halda kyrru fyrir hjá Íslendingaliðinu.
B.T. greinir frá því að Alfreð sé búinn að skrifa undir nýjan eins árs samning og að Sævar Atli, sem var með samning til sumarsins 2024, hafi framlengt um eitt ár, til sumarsins 2025.
Báðir voru þeir hluti af liði Lyngby sem bjargaði sér með lygilegum hætti frá falli úr dönsku úrvalsdeildinni á dögunum.
Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins og er samningsbundinn til sumarsins 2025. Kolbeinn Birgir Finnsson gekk þá til liðs við Lyngby í janúar síðastliðnum og er einnig samningsbundinn til 2025.
Allir fjórir Íslendingarnir taka því slaginn með Lyngby á næsta tímabili.
Uppfært kl. 13:27: Lyngby hefur staðfest að Alfreð sé búinn að skrifa undir nýjan eins árs samning.