Búum okkur undir mikil slagsmál

Milan Skriniar í leik með Inter Mílanó.
Milan Skriniar í leik með Inter Mílanó. AFP/Miguel Medina

Milan Skriniar, miðvörður Slóvakíu og ítalska stórliðsins Inter Mílanó, býst við sannkölluðum hörkuleik gegn Íslandi í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu á Laugardalsvelli á morgun.

Á blaðamannafundi í morgun sagði Skriniar að Slóvakar búist síður en svo við auðveldum leik. Ísland tapaði fyrsta leik í undankeppninni gegn Bosníu en Slóvakar unnu sinn leik gegn Bosníumönnum, 2:0 á heimavelli.

„Þetta verður viðureign mikilla slagsmála. Við verðum að búa okkur undir það. Ég held að gæðin sem strákarnir sýndu í leiknum gegn Bosníu og Hersegóvínu muni verða ofan á,“ sagði miðvörðurinn öflugi, sem brátt gengur til liðs við París Saint-Germain á frjálsri sölu.

Fyrir fram er búist við því að Ísland, Slóvakía og Bosnía muni koma til með að berjast um annað sætið í J-riðlinum, og sigur á morgun því afskaplega mikilvægur fyrir bæði lið.

„Hvað baráttuþrek varðar munu þeir örugglega vilja hafa betur. Það verður að vera meira hungur okkar megin. Ég trúi því að við munum ná árangri. Þessi viðureign getur skipt sköpum fyrir okkur og opnað dyrnar fyrir eitthvað meira,“ bætti Skriniar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert