Fyrirliðinn æfði með Þór og FH

Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundinum í dag.
Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst hafa flakkað um og æft með nokkrum íslenskum liðum að undanförnu eftir að keppnistímabilinu í Katar lauk fyrir rúmum mánuði.

Aron Einar er leikmaður Al-Arabi og verður það í að minnsta kosti ár til viðbótar. Eftir að tímabilinu í Katar lauk æfði hann með uppeldisfélagi sínu Þór á Akureyri og í kjölfarið með FH í Hafnarfirði.

„Ég er búinn að vera að æfa með Þór og FH, er búinn að flakka um alls staðar til þess að halda mér gangandi. Því eldri sem maður er því meiri tíma þarf maður að eyða í sjálfan sig til þess að halda sér við. Ég er alveg meðvitaður um það.

Það er gott sjúkrateymi í landsliðinu sem er líka búið að hjálpa mér að ná endurheimt að fullu. Það er bara að æfa á fullu og halda sér í nógu góðu formi til þess að geta djöflast um á morgun,“ sagði Aron Einar á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Finnum fyrir meðbyr

Ísland fær Slóvakíu í heimsókn á Laugardalsvöll annað kvöld í mikilvægum leik í undankeppni EM 2024.

Aron Einar bregður á leik á æfingu á dögunum.
Aron Einar bregður á leik á æfingu á dögunum. Eggert Jóhannesson

Á fundinum var hann spurður hvort liðið fyndi fyrir aukinni jákvæðni í garð landsliðsins eftir að Åge Hareide var ráðinn landsliðsþjálfari í apríl síðastliðnum.

„Við finnum alveg fyrir meðbyr og ætlum að nýta okkur hann. Það er tækifæri á morgun til að byggja ofan á hann.

Ég sagði það í viðtali um daginn að það er líka undir okkur komið hvernig við búum til stemningu á Laugardalsvelli og fáum fólkið með okkur í lið. Þetta er kjörið tækifæri til þess.

Við ætlumst til þess af sjálfum okkur að ná í þrjú stig en við vitum að það verður virkilega erfitt. Þeir ætla að byggja ofan á Bosníu-úrslitin sín og koma hingað til þess að ná í þrjú stig líka. Þetta verður stál í stál á morgun,“ svaraði landsliðsfyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert