Stjarnan er komin í undanúrslit bikarkeppni kvenna í fótbolta eftir útisigur á Keflavík, 1:0, í Keflavík í kvöld. Mótherji Stjörnunnar verður Breiðablik.
Leikurinn var jafn til að byrja með en Stjörnukonur stýrðu honum þó. Jasmín Erla Ingadóttir fékk strax boltann í frábærri stöðu en missti hann frá sér og færið rann út í sandinn.
Hún svaraði því þó á 24. mínútu þegar hún stangaði fyrirgjöf Heiðu Ragneyjar Viðarsdóttur í netið með glæsibrag og kom Stjörnukonum yfir, 1:0.
Fátt var um atvik eftir það en Stjörnukonur voru með góð tök á leiknum, og fóru inn í hálfleikinn einu marki yfir.
Seinni hálfleikurinn var rólegur en Stjörnukonur voru með hann í sínum höndum. Keflavík komst örfáum sinnum í góðar stöður og að lokum dugði mark Jasmínar til að tryggja Stjörnukonum undanúrslit.
Í undanúrslitum verður stórleikur í Garðabænum en þar mun Breiðablik koma í heimasókn. Sigurvegari þeirrar viðureignar mun mæta FH eða Víkingi úr Reykjavík í úrslitaleiknum.