„Man eftir tveimur erfiðum framherjum“

Alfreð Finnbogason kemur inn á fyrir Kolbein Sigþórsson í leik …
Alfreð Finnbogason kemur inn á fyrir Kolbein Sigþórsson í leik Íslands gegn Portúgal á EM 2016 í Frakklandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Patrik Hrosovský, miðjumaður Slóvakíu og belgíska liðsins Genk, telur Ísland enn vera erfiðan andstæðing þrátt fyrir að liðið sé ekki jafn sterkt og það var upp á sitt besta fyrir nokkrum árum.

„Þeir voru með mjög góða kynslóð þegar þeir komust á EM 2016 og voru með mjög óþægilegt lið. Ég held samt að þeir séu ennþá þannig. Þeir spila áfram sinn hefðbundna fótbolta,“ sagði Hrosovský á blaðamannafundi í morgun.

Slóvakía kemur í heimsókn á Laugardalsvöll annað kvöld í mikilvægum leik fyrir bæði lið í J-riðli undankeppni EM 2024.

Hrosovský hefur áður mætt Íslandi, árið 2015, þegar Slóvakía vann 3:1 í vináttulandsleik ytra.

„Það sem ég man eftir úr þeim leik eru tveir framherjar sem voru mjög erfiðir,“ rifjaði hann upp.

Þar vísaði miðjumaðurinn til Alfreðs Finnbogasonar, sem skoraði mark Íslands í leiknum, og Kolbeins Sigþórssonar, sem hefur ekki leikið knattspyrnu í að verða tvö ár.

„Þetta verður sérstaklega erfitt fyrir okkur þar sem þeir töpuðu fyrsta leik sínum [gegn Bosníu] og eru á heimavelli. Þegar ég lít til þess hvernig við höfum undirbúið okkur og þeirra gæða sem við búum yfir trúi ég því að við munum ná að takast vel á við leikinn,“ sagði Hrosovský að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert