Albert heiðarlegur: Skil að hann hafi ekki dæmt

Albert Guðmundsson í baráttu við Milan Skriniar og Denis Vavro …
Albert Guðmundsson í baráttu við Milan Skriniar og Denis Vavro í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hefðum getað gert út um þennan leik í fyrri hálfleik,“ sagði Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tapið gegn Slóvakíu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið skapaði sér fullt af færum í fyrri hálfleik, en varð að lokum að sætta sig við tap, eftir erfiðan seinni hálfleik.

„Mér fannst þeir taka aðeins yfir í kringum 60. mínútu en svo náum við aftur tökum undir lokin, sem er eðlilegt. Þeir fóru greinilega ágætlega yfir þetta í hálfleik og lokuðu glufunum sem voru að opnast hjá þeim,“ útskýrði Albert.

Albert Guðmundsson sneri aftur í landsliðið í kvöld.
Albert Guðmundsson sneri aftur í landsliðið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann var ekki í myndinni hjá Arnari Þór Viðarssyni þegar hann var landsliðsþjálfari og spilaði Albert því sinn fyrsta landsleik í rúmt ár í kvöld.

„Það er heiður að spila fyrir íslenska landsliðið og ég er alltaf tilbúinn í að leggja allt í sölurnar fyrir þessa treyju. Það er gaman að vera kominn aftur og hjálpa liðinu,“ sagði hann.

Albert fór í tvígang niður innan teigs og vildi víti, en skoskur dómari leiksins dæmdi ekkert. Hann var heiðarlegur þegar talið barst að þeim atvikum. „Fyrra skiptið var ekki mikið, en það var hægt að dæma í seinna skiptið. Hann snerti mig, en ég sæki þetta aðeins og skil að hann hafi ekki dæmt.“

Albert Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Albert Guðmundsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staða Íslands í riðlinum er orðin erfið eftir leikinn í kvöld, enda Ísland aðeins með þrjú stig eftir þrjá leiki. „Þetta verður ekki auðvelt, en ég ætla ekki að útiloka neitt. Við ætlum að sækja stig hérna heima og við verðum að gera það á útivelli líka úr því sem komið er,“ sagði Albert.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert