Maður er orðlaus

Hörður Björgvin var skiljanlega svekktur eftir leikinn í kvöld.
Hörður Björgvin var skiljanlega svekktur eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var helvíti leiðinlegur biti að kyngja,“ sagði svekktur Hörður Björgvin Magnússon, varnarmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap Íslands fyrir Slóvakíu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Mikill heppnisstimpill var á sigurmarki Slóvaka, sem Tomás Suslov skoraði. Jóhann Berg Guðmundsson þrumaði boltanum í andlitið á Suslov og þaðan fór hann yfir Rúnar Alex Rúnarsson í markinu og í netið.

Hörður Björgvin Magnússon í leiknum í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður er orðlaus yfir að fá svona mark á sig. Þetta var heppni sem þeir fengu með sér í lið. Það er fúlt að sjá Jóa reyna að hreinsa og boltinn fer í andlitið á honum og í boga yfir Rúnar, þetta var óverjandi og þetta er leiðinlegt,“ sagði Hörður.

Íslenska liðið lék vel í fyrri hálfleik og skapaði sér fullt af góðum færum. Seinni hálfleikurinn reyndist hins vegar töluvert erfiðari.

„Í fyrri hálfleik gekk rosalega vel. Taktíkin var að virka. Við vorum grimmir, sóttum vel á þá og pressuðum vel. Við spiluðum vel og sköpuðum okkur mörg góð færi sem við nýttum ekki. Þeir vildu sækja meira í seinni hálfleik og þá varð þetta erfiðara.“

Hörður átti að spila sem vinstri bakvörður í kvöld, en eftir að Aron Einar Gunnarsson meiddist í upphitun og Valgeir Lunddal Friðriksson kom inn í byrjunarliðið í hans stað færði Hörður sig í miðvarðarstöðuna.

„Taktíkin okkar breyttist aðeins. Það kemur maður í manns stað. Valgeir stóð sig gríðarlega vel og ég er ánægður með hans innkomu í báðar stöðurnar sem hann spilaði. Auðvitað hefði verið gott að hafa Aron í þessum leik, reynslumikinn miðjumann að hjálpa okkur, en svona er fótboltinn. Menn meiðast.“

Ísland er í fjórða sæti riðilsins með þrjú stig, fjórum stigum á eftir Slóvakíu í öðru sæti og sex stigum á eftir toppliði Portúgals.

„Það eru nokkrir leikir búnir. Við eigum eftir að spila við þá úti og við eigum eftir heimaleik á móti Bosníu. Það er allt opið og við erum jákvæðir og bjartsýnir upp á framhaldið. Það hefði samt breytt öllu ef við hefðum unnið í kvöld. Við þurfum að treysta á að önnur lið tapi stigum og við förum að safna,“ sagði Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert