Mesta óheppni sem til er

Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta mótsleik með A-landsliðinu í …
Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta mótsleik með A-landsliðinu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landslið Íslands í fótbolta er hann lék allan leikinn gegn Slóvakíu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Bakvörðurinn átti að byrja á bekknum en vegna meiðsla Arons Einars Gunnarssonar í upphitun var Valgeir færður í byrjunarliðið.

„Þetta var stuttur fyrirvari en ég fékk að vita fyrir upphitunina að Aron væri tæpur. Maður tók almennilega upphitun og gerði sig kláran,“ sagði Valgeir við mbl.is.

Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted í eldlínunni í kvöld.
Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann fann fyrir blendnum tilfinningum í leikslok, nýbúinn að leika sinn fyrsta keppnisleik fyrir A-landsliðið, en á sama tíma að svekkja sig á naumu tapi.

„Þetta var geðveikt en svekkjandi að tapa þessum leik. Við fengum nokkuð dauðafæri í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora í það minnsta tvö. En það var geggjað að sjá svona marga mæta,“ sagði hann.

Sigurmark Slóvaka var ekki sérlega fallegt, en það skoraði varamaðurinn Tomás Suslov með andlitinu, þegar Jóhann Berg Guðmundsson reyndi að hreinsa frá. „Þetta er mesta óheppni sem til er. Hann veit sjálfur ekki hvar boltinn er og svo svífur hann í fjærhornið.“

Byrjunarlið Íslands í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgeir getur verið sáttur með góða frammistöðu í fyrsta keppnisleiknum og komust Slóvakar lítið í gegnum bakvörðinn. „Ég er nokkuð sáttur með mína frammistöðu í leiknum. Það var samt leiðinlegt að markið hafi komið mín megin. Annars er ég heilt yfir frekar sáttur.“

Valgeir vonast til að vera í byrjunarliðinu er Ísland leikur við Portúgal á Laugardalsvelli á þriðjudag. „Það er draumurinn en við verðum að sjá hvernig þjálfarinn vill stilla upp gegn Portúgal,“ sagði Valgeir sem er fastamaður í liði Svíþjóðarmeistara Häcken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert