Ósigur eftir kaflaskiptan leik gegn Slóvakíu

Sverrir Ingi Ingason, Mikael Egill Ellertsson og Jóhann Berg Guðmundsson …
Sverrir Ingi Ingason, Mikael Egill Ellertsson og Jóhann Berg Guðmundsson vonsviknir eftir að flautað var til leiksloka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slóvakía lagði Ísland að velli, 2:1, í þriðju umferð J-riðils undankeppni EM karla í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld.

Eftir bráðfjörugan fyrri hálfleik þar sem Juraj Kucka skoraði fyrir Slóvaka og Alfreð Finnbogason jafnaði úr vítaspyrnu voru Slóvakar sterkari í þeim síðari og Tomás Suslov skoraði sigurmark þeirra á 69. mínútu.

Óhætt er að segja að Portúgal og Slóvakía séu þegar komin í vænlega stöðu í riðlinum. Portúgal vann Bosníu 3:0 og er með 9 stig, Slóvakía er með 7 stig, Lúxemborg 4, Ísland 3, Bosnía 3 og Liechtenstein ekkert.

Fyrir Slóvakana er þessi sigur gríðarlega sterkur eftir að hafa lagt Bosníu að velli í annarri umferð. Íslenska liðsins bíður hins vegar heldur betur erfitt verkefni þegar Cristiano Ronaldo og félagar hans í liði Portúgals mæta á Laugardalsvöllinn á þriðjudagskvöldið.

Aron þurfti að hætta við

Íslenska liðið varð fyrir áfalli áður en leikurinn hófst því Aron Einar Gunnarsson fyrirliði reyndist ekki leikfær þegar til kom og Åge Hareide þurfti að gera breytingu á byrjunarliðinu. Valgeir Lunddal Friðriksson kom inn sem vinstri bakvörður, Hörður Björgvin Magnússon fór í miðvarðarstöðuna fyrir Guðlaug Victor Pálsson sem leysti Aron af á miðjunni.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað og áherslur Hareide komu fljótt í ljós. Ekki spilað úr útspörkunum, heldur boltanum komið strax fram, og fáar sendingar notaðar til að komast aftur fyrir vörn Slóvaka.

Jón Dagur Þorsteinsson skýtur að marki Slóvakíu.
Jón Dagur Þorsteinsson skýtur að marki Slóvakíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það gekk líka vel strax frá byrjun. Hraðar sóknir Íslands komu Slóvökum í vandræði hvað eftir annað og fimm sinnum á fyrstu 15 mínútunum komst íslenska liðið í góð færi.

Albert Guðmundsson skaut beint á Dúbravka í markinu, Willum Þór Willumsson komst í góða stöðu í vítateignum en fann ekki samherja, Albert og Alfreð Finnbogason náðu flottri skyndisókn þar sem vantaði herslumuninn, Jón Dagur Þorsteinsson skaut framhjá af markteig og Albert komst loks í sannkallað dauðafæri þegar hann lék á markvörðinn en skaut í hliðarnetið úr þröngu færi hægra megin.

Slóvakar voru samt meira með boltann á þessum kafla og voru hættulegir án þess að skapa sér opin færi. Rúnar Alex Rúnarsson varði auðveldlega frá Marek Hamsík sem skaut utan vítateigs.

En það voru Slóvakar sem skoruðu fyrst. Á 27. mínútu fékk Juraj Kucka boltann eftir innkast frá vinstri og þrumaði boltanum óverjandi af 18 metra færi í hornið nær, 0:1.

Íslendingar fagna jöfnunarmarki Alfreðs Finnbogasonar.
Íslendingar fagna jöfnunarmarki Alfreðs Finnbogasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska liðið var smástund að jafna sig en tók svo vel við sér á lokakafla fyrri hálfleiks með góðum árangri.

Vítaspyrna og jöfnunarmark

Á 40. mínútu brunaði Jón Dagur inn í vítateiginn vinstra megin, lék skemmtilega á bakvörðinn og átti hörkuskot á markið. Martin Dúbravka varði vel og boltinn hrökk út í miðjan vítateig. Þar lék Willum Þór á varnarmann en var felldur. Vítaspyrna!

Alfreð Finnbogason steig fram og skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni, sitt 16. landsliðsmark, 1:1.

Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu ásamt Alfons Sampsted og Willum …
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu ásamt Alfons Sampsted og Willum Þór Willumssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

En það var Rúnar Alex sem sá til þess að staðan væri jöfn í hálfleik. Á 44. mínútu komst Róbert Mak í dauðafæri rétt við markteiginn eftir snögga sókn og sendingu frá hægri en Rúnar varði skot hans á ótrúlegan hátt. Staðan var því 1:1 þegar skoski dómarinn flautaði til hálfleiks.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleik af nokkrum krafti og pressaði vel að marki Slóvaka án þess að komast í opin færi. Leikurinn jafnaðist síðan fljótlega og var lokaðri en í fyrri hálfleiknum.

Báðir þjálfarar skiptu um tvo sóknarmenn snemma í hálfleiknum og þeir Hákon Arnar Haraldsson og Mikael Egill Ellertsson komu inn á hjá íslenska liðinu.

Slóvakar náðu upp stöðugt meiri sóknarþunga og hann skilaði sér á 69. mínútu en í mjög slysalegu marki af hálfu Íslands. Jóhann Berg Guðmundsson ætlaði að hreinsa frá marki rétt utan markteigs en boltinn fór beint í andlitið á Tomás Suslov og þaðan í boga yfir Rúnar Alex í markinu, 1:2. Suslov vissi sjálfur varla hvað hafði gerst því stumrað var yfir honum eftir að boltinn lá í netinu en hann reis að lokum á fætur og gat haldið áfram.

Alfreð Finnbogason í þann mund að jafna metin.
Alfreð Finnbogason í þann mund að jafna metin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska liðinu gekk í kjölfarið ekkert að ógna marki Slóvaka þrátt fyrir að vera meira með boltann. Hareide gerði sóknarskiptingu á 82. mínútu þegar Sævar Atli Magnússon kom inn á í staðinn fyrir hægri bakvörðinn Alfons Sampsted og fór beint í framlínuna.

Sverrir fékk færi í lokin

Í uppbótartímanum fékk Sverrir Ingi Ingason gott færi til að jafna metin. Hann varð eftir í vítateignum þegar boltinn hrökk til baka á miðjuna, Hákon Arnar átti langa sendingu og Sverrir var allt í einu einn gegn markverðinum, lyfti boltanum yfir hann en líka yfir þverslána. Þetta var tækifærið til að krækja í stig, eina skot Íslands á mark í seinni hálfleiknum.

Reyndar skaut Willum Þór yfir tómt markið eftir aukaspyrnu skömmu síðar, þegar Martin Dúbravka markvörður átti misheppnað úthlaup, en einhverra hluta vegna var dæmd aukaspyrna og markið hefði ekki verið gilt.

Leikurinn var kaflaskiptur. Fyrri hálfleikurinn og byrjun síðari hálfleiks góð af hálfu Íslands en síðan dró af liðinu. Slóvakar voru með undirtökin seinni hlutann og eftir markið sigldu þeir sigrinum heim tiltölulega örugglega. Þegar á heildina er litið var sigur þeirra verðskuldaður.

En það var vissulega grátlegt að tapa leiknum á slysalegu marki eins og því sem réð úrslitum þegar upp var staðið.

Flestir leikmanna íslenska liðsins léku vel í fyrri hálfleik. Albert Guðmundsson og Willum Þór Willumsson komu með ferskan blæ í liðið, Alfreð Finnbogason og Jón Dagur Þorsteinsson voru hættulegir, bakverðirnir Alfons Sampsted og Valgeir Lunddal Friðriksson virkir í sóknarleiknum og heildarbragurinn var góður.  Jóhann Berg öflugur í sinni nýju stöðu inni á miðjunni.

Sverrir Ingi Ingason skallar boltann frá.
Sverrir Ingi Ingason skallar boltann frá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í seinni hálfleiknum týndust flestir sóknar- og miðjumennirnir, og eftir að hafa sprengt upp vörn Slóvakíu margoft í fyrri hálfleiknum skrúfuðu gestirnir fyrir þann leka í þeim síðari þar sem fátt gekk upp hjá íslenska liðinu þegar það var með boltann. 

Staðan í riðlinum er þegar orðin erfið. Ef íslenska liðið ætlar að berjast við Bosníu og Slóvakíu um annað sætið, sem það gæti vissulega enn gert, þarf flest að ganga upp í þeim sjö umferðum sem eftir eru. Næst er það Portúgal á þriðjudagskvöldið og íslenska liðið hefur tæpast efni á að tapa þeim leik, hversu krefjandi verkefni sem það er að vinna eitt af bestu liðum Evrópu.

Jón Dagur Þorsteinsson með boltann.
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Albert Guðmundsson í baráttu við Milan Skriniar og Peter Pekarik.
Albert Guðmundsson í baráttu við Milan Skriniar og Peter Pekarik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Alfons Sampsted með boltann. Róbert Mak og Marek Hamsík fylgjast …
Alfons Sampsted með boltann. Róbert Mak og Marek Hamsík fylgjast með. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jón Dagur Þorsteinsson skýtur framhjá úr dauðafæri.
Jón Dagur Þorsteinsson skýtur framhjá úr dauðafæri. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Marek Hamsík, Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson.
Marek Hamsík, Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Alfreð Finnbogason í baráttunni við Stanislav Lobotka.
Alfreð Finnbogason í baráttunni við Stanislav Lobotka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Albert Guðmundsson sendir boltann á meðan Marek Hamsik fylgist með.
Albert Guðmundsson sendir boltann á meðan Marek Hamsik fylgist með. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stuðningsmenn Íslands lifa sig inn í söng á laginu Ferðalok.
Stuðningsmenn Íslands lifa sig inn í söng á laginu Ferðalok. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Tólfan kemur sér fyrir.
Tólfan kemur sér fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jóhann Berg Guðmundsson og Guðlaugur Victor Pálsson eigast við í …
Jóhann Berg Guðmundsson og Guðlaugur Victor Pálsson eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Åge Hareide og Aron Einar Gunnarsson fyrirliði, sem meiddist í …
Åge Hareide og Aron Einar Gunnarsson fyrirliði, sem meiddist í upphitun, ræða málin fyrir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stuðningsmenn Íslands.
Stuðningsmenn Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jón Dagur Þorsteinsson og Guðlaugur Victor Pálsson eigast við í …
Jón Dagur Þorsteinsson og Guðlaugur Victor Pálsson eigast við í upphitun í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hörður Björgvin Magnússon á fleygiferð í upphitun.
Hörður Björgvin Magnússon á fleygiferð í upphitun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ísland 1:2 Slóvakía opna loka
90. mín. 4 mínútum bætt við
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert