Þetta mark hjá þeim er bara grín

Sævar Atli Magnússon í baráttu við Denis Vavro í kvöld.
Sævar Atli Magnússon í baráttu við Denis Vavro í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við byrja hrikalega sterkt, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Sævar Atli Magnússon, sóknarmaður íslenska karlalandsliðsins, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap fyrir Slóvakíu í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við sem sátum á bekknum sáum að við vorum að vinna öll einvígi, návígi og skapa okkur þvílíkt góð færi en boltinn vildi bara ekki inn. Þeir fá eitt langskot, sem er vel gert hjá þeim. Þegar þú spilar á móti svona góðu liði er þér refsað.

Það er bara þannig. Það var mjög vel gert hjá okkur að jafna fyrir hálfleik. Síðan er seinni hálfleikurinn frekar jafn og þetta mark hjá þeim er bara grín. En svona er bara fótboltinn,“ bætti Sævar Atli við.

Síðara mark Slóvaka var afar slysalegt þegar Jóhann Berg Guðmundsson hreinsaði í andlitið á Tomás Suslov, þaðan sem boltinn fór í netið.

Ágætis innkoma

Eftir góðan fyrri hálfleik var ekki sami kraftur í íslenska liðinu í þeim síðari, eða allt þar til Sævar Atli kom sprækur inn á sem varamaður níu mínútum fyrir leikslok.

„Mér fannst bæði lið spila af frekar mikilli ákefð í fyrri hálfleik, pressa hátt og þetta var mikill „ping pong“ leikur, fram og til baka. Mér fannst draga af báðum liðum í seinni hálfleik.

Þeir skipta snemma inn á og hafa kannski ferskari lappir. Ég átti ágæta innkomu en hefði kannski viljað fá færi. Það verður bara að koma seinna,“ sagði hann.

Næsti úrslitaleikur gegn besta liðinu

Eftir tvö töp í fyrstu þremur leikjum undankeppninar er útlitið ekki sérstaklega gott í J-riðlinum sem stendur.

„Nú erum við að fara að spila nokkra úrslitaleiki, sem er bara fínt. Við erum með marga frábæra karaktera í þessum hóp og við verðum að vera klárir í úrslitaleiki.

Næsti úrslitaleikur er á heimavelli gegn besta liðinu í riðlinu, Portúgal, og við ætlum að gera allt sem við getum til þess að fá þrjú stig,“ sagði Breiðhyltingurinn.

Það er allt hægt

Hvað getur íslenska liðið bætt í framhaldinu?

„Bara þessi smáatriði en það er svolítið erfitt að bæta þau. Ef við nýtum okkar færi hefðum við komist tvö eða þrjú núll yfir í fyrri hálfleik.

Portúgal er lið sem refsar við hvert einasta tækifæri þannig að við verðum að vera skynsamir á öllum sviðum leiksins.

Við munum fá færi, það er 100 prósent. Ég trúi því að ef við nýtum þau þá sé allt hægt,“ sagði Sævar Atli að endingu í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert