„Tilfinningin er mjög súr. Miðað við allt sem við lögðum í leikinn fannst mér úrslitin ekki sanngjörn,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, miðvörður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap fyrir Slóvakíu í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld.
„Sérstaklega miðað við mörkin sem við fáum á okkur og færin sem við fáum. Þegar við nýtum ekki færin okkar og gefum svona auðveld mörk er þetta erfitt. Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn allt í lagi, svona fyrstu tíu mínúturnar.
Við vorum svolítið að ná að vinna boltann í hápressunni og það voru fínir möguleikar en við náðum kannski ekki alveg að koma okkur í færi. Síðan fannst mér liðið falla aðeins aftur en þegar þeir skora fannst mér við finna smá kraft aftur.
Það var bara ekki nóg. En það var margt jákvætt í þessu. Það er mjög svekkjandi að hafa tapað þessu,“ hélt Sverrir Ingi áfram.
Spurður hvað hafi valdið því að verr gekk að skapa færi í síðari hálfleiknum sagði hann:
„Ég veit það ekki. Við förum að gera skiptingar, það koma nýir menn inn á og leikur liðsins riðlast kannski aðeins. En strákarnir sem komu inn á lögðu allt í þetta. Að sama skapi, þó að þeir séu með stjórn á leiknum í 15-20 mínútur, eru þeir ekki að skapa sér neitt.
Bæði mörkin sem við fáum á okkur koma eftir innköst. Í fyrra markinu eigum við innkast á okkar vallarhelmingi og í seinna markinu eiga þeir innkast, þannig að það er í rauninni ekkert í gangi.
Það er mjög auðvelt að rýna í hvað fer úrskeiðis þegar við fáum okkur mörkin. En samt hefðum við getað verið þrjú eða fjögur eitt yfir í fyrri hálfleik miðað við færin sem við fengum.“
Sverrir Ingi sagði ýmislegt jákvætt hægt að taka út úr leik kvöldsins.
„Já, klárlega. Mér fannst orkan í liðinu góð og það er margt sem hægt er að byggja ofan á. Við fundum það alveg að við vorum inni í leiknum allan tímann en það vantaði herslumuninn til þess að skora mörkin.
Við verðum núna að tjasla okkur saman fyrir þriðjudaginn og reyna að taka eitthvað út úr þeim leik,“ sagði hann, en liðið fær þá stórlið Portúgals í heimsókn í undankeppninni.
Miðvörðurinn sagði það vissulega hafa verið vont að missa Aron Einar Gunnarsson fyrirliða út stuttu fyrir leik en hrósaði Guðlaugi Victori Pálssyni, sem átti að byrja honum við hlið í miðverði en færðist fyrir vikið upp á miðjuna, í hástert.
„Já, að sjálfsögðu var það högg. Hann er fyrirliði og gríðarlega mikilvægur liðinu. Hann var búinn að vera að reyna að harka sig í gegnum þetta en Gulli kom inn á miðjuna og stóð sig frábærlega, hann var frábær í leiknum og það voru margar góðar frammistöður.
Þannig að við þurfum að reyna að líta á það jákvæða úr leiknum þó það sé erfitt núna eftir að hafa tapað leiknum. Það er hægt að byggja á þessu.
Það voru margir að spila saman í fyrsta skipti og við verðum líka að vera raunsæir. Vonandi getum við með 2-3 leikjum saman haldið áfram á þessari braut og byggt á því,“ sagði Sverrir Ingi að lokum í samtali við mbl.is.