Vorum heppnir en þess þarf líka

Albert Guðmundsson sendir boltann á meðan Marek Hamsik fylgist með.
Albert Guðmundsson sendir boltann á meðan Marek Hamsik fylgist með. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Marek Hamsík, fremsti knattspyrnumaður Slóvaka fyrr og síðar, hrósaði happi fyrir sigrinum gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í kvöld en þetta var væntanlega hans næstsíðasti leikur á ferlinum.

„Þetta er frábær tilfinning því við unnum virkilega mikilvægan sigur með tilliti til stöðunnar í riðlinum og möguleikanna á að komast áfram. Við vorum líka heppnir en þess þarf líka til að ná langt í fótboltanum," sagði Hamsík, sem sneri aftur í landsliðið fyrir tvo leiki liðsins núna í júní, eftir að hafa hætt með því á síðasta ári og lagt skóna formlega á hilluna fyrr í þessum mánuði.

„Við erum afar ánægðir með þennan sigur. Við klúðruðum fullt af einföldum sendingum til að byrja með, sem ætti ekki að gerast, og með því gáfum við Íslendingum góð færi. 

Ég er ánægður með að hafa komið hingað og hjálpað liðinu, það er sérstaklega sætt að vinna á svona erfiðum útivelli. Frammistaðan okkar var góð þrátt fyrir þessi mistök," sagði Marek Hamsík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert