Leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu léku með sorgarbönd í gær þegar liðið tók á móti Slóvakíu í J-riðli undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli.
Leiknum lauk með 2:1-sigri Slóvakíu en leikmenn Íslands léku með sorgarbönd vegna fráfalls í fjölskyldu Guðlaugs Victors Pálssonar.
Guðlaugur Victor, sem er 32 ára gamall, átti frábæran leik á miðsvæðinu en til stóð að hann myndi byrja í hjarta varnarinnar ásamt Sverri Inga Ingasyni.
„Guðlaugur Victor er frábær persónuleiki og honum leið að sjálfsögðu illa þegar hann fékk fréttirnar um fráfall fjölskyldumeðlims,“ sagði Hareide á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær.
„Það hefur verið vel hugsað um hann í herbúðum okkar og það var aðdáunarvert hvernig leikmennirnir tóku allir utan um hann.
Hann stóð sig frábærlega í leiknum og í svona aðstæðum getur fótboltinn stundum hjálpað mönnum að dreifa huganum,“ sagði Hareide.