Mótsstjóri TM fótboltamótsins, sem haldið var dagana 15. til 17. júní í Vestmannaeyjum, segir mótið hafa farið vel fram. Stelpurnar hafi staðið sig vel og foreldrarnir líka.
Tæplega 1.100 stelpur á aldrinum ellefu til tólf ára mættu til Vestmannaeyja ásamt foreldrum sínum til þess að keppa á mótinu en 116 lið frá 35 félögum tóku þátt.
„Það komu allir á miðvikudaginn og svo byrjaði mótið á fimmtudagsmorgun, við vorum með hæfileikakeppni um kvöldið á fimmtudagskvöldinu. Svo á föstudagskvöldið þá vorum við með landsleik [...] og svo var Jón Jónsson hérna á kvöldvökunni hjá okkur. Við fengum hann nú til þess að semja mótslag fyrir okkur og það bara sló þvílíkt í gegn, það sungu allir með og bara geggjað stuð,“ segir Sigríður Inga Kristmannsdóttir mótsstjóri í samtali við mbl.is.
Hún segir mótinu hafa lokið í gær með úrslitaleikjum og lokahófi en flestir hafi haldið heim á leið eftir það. Allt hafi gengið ótrúlega vel.
„Það bara rúllaði allt vel hjá okkur, öll dagskrá og allt á réttum tíma, allir til fyrirmyndar, allir gestirnir okkar. Stelpurnar náttúrulega bara frábærar og gaman að sjá hvað þær skemmtu sér vel að skila fótbolta og foreldrarnir bara stilltir og prúðir á hliðarlínunni að hvetja þær áfram. Eins og ég segi, þetta var bara ótrúlega flott og skemmtilegt, ég held að það hafi bara allir farið brosandi heim,“ segir Sigríður.
Spurð hvað sé það skemmtilegasta við að skipuleggja svona mót segir Sigríður mest gefandi að sjá gleðina hjá stelpunum.
„Þetta er náttúrulega alveg ógeðslega mikil vinna, mótið er náttúrulega í undirbúningi í marga mánuði áður en það kemur að því en það er bara alltaf þetta að sjá hvað þetta gerir fyrir stelpurnar okkar og fyrir kvennaknattspyrnu í landinu. Það gefur manni bara svo mikið að sjá gleðina, heyra í þeim hrópin og köllin, hvað er gaman á vellinum,“ segir Sigríður.