Átta mörk voru skoruð í kaflaskiptum leik FHL, sameiginlegu liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis, og Gróttu á Reyðarfirði í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu í dag. Vann þá FHL 5:3.
Gestirnir frá Seltjarnarnesi byrjuðu leikinn af krafti og á 17. mínútu voru þeir tveimur mörkum yfir þökk sé Arnfríði Auði Arnarsdóttur og Hönnuh Abraham, 2:0.
Tvö snögg mörk frá Sofiu Gisella Lewis, á 36. og 43. mínútu, jöfnuðu leikinn og var 2:2 hálfleiksstaðan.
Natalie Colleen Cooke kom FHL yfir á 48. mínútu en því var snögglega svarað á 57. mínútu þar sem Lovísa Davíðsdóttir Scheving jafnaði metin á ný.
FHL átti þá betri lokakafla og kom Sofia Lewis þeim í 4:3 á 61. mínútu með sínu þriðja marki í dag. Natalie Cooke bætti svo við öðru marki á þriðju mínútu uppbótartímans og úrslitin ráðin, 5:3.
FHL er í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig en Grótta er í fjórða með tólf.