„Mér fannst við byrja gríðarlega vel. Við setjum pressu á þá og þeir eru að gera mistök, voru svona hálf smeykir,“ sagði Alfreð Finnbogason, markaskorari íslenska landsliðsins í 1:2-tapi fyrir Slóvakíu í undankeppni EM 2024 í kvöld, í samtali við mbl.is.
„Við hefðum þurft að ganga á lagið og skora mörk úr þessum færum, þó það hefði ekki verið nema 1-2 í viðbót. Þá hefðum við verið í frábærri stöðu í hálfleik og þeir þurft að koma á okkur og við getað beitt aðeins meiri skyndisóknum.
Í seinni hálfleik taka þeir aðeins meira völdin. Við förum aðeins aftar á völlinn, sem breytti aðeins dýnamíkinni í leiknum, án þess þó að þeir hafi verið að skapa eitthvað mikið.
Það var svona lengra á milli línanna hjá okkur, það var ekki alveg nógu gott. En í grunninn er þetta gríðarlega svekkjandi tap og ekki verðskuldað,“ bætti Alfreð við.
Beðinn um að rýna í síðari hálfleikinn, sem var ekki jafn góður hjá íslenska liðinu og sá fyrri, sagði hann:
„Þeir tóku átturnar sínar aðeins neðar þannig að þeir voru með fleiri möguleika til þess að spila stutt. Þó að við næðum ekki að pressa þá voru þeir ekki að skapa neitt, þeir voru bara í einhverju dútli.
Við verðum í raun og veru að horfa á okkur sjálfa og hvað við getum gert betur. Við verðum að gera betur í þessum færum. Við þurfum að ná sendingum fyrir, fylla teiginn og vera mættir.
Í lokin þegar Sævar [Atli Magnússon] gefur vel fyrir þá verðum við bara að vera mættir. Þetta eru svona atriði sem við getum stjórnað og verðum að horfa í að gera betur fyrir næsta leik.“
Alfreð sagði það gamla sögu og nýja að smáatriði ráði úrslitum á þessu stigi og nefndi sérstaklega slysalegt sigurmark Slóvakíu.
„Í svona leik eru smáatriði að fara að ráða úrslitum, það er alltaf þannig. Maður vissi það fyrir fram að þetta yrði leikur sem myndi vinnast með eins marks mun þar sem liðið sem gerir færri mistök og nýtir sína möguleika betur muni vinna leikinn.
Það er ekkert með þeirra snilld að gera þetta annað mark, það var náttúrlega algjör heppnisstimpill yfir því. En í fótbolta vinnur maður oft fyrir sinni eigin heppni. Við þurfum bara að horfa á okkur sjálfa og reyna að læra fljótt af þessum leik.“
Hann fór af velli eftir klukkutíma en kvaðst fyllilega heill heilsu.
„Já, ég er fínn. Maður hefði auðvitað viljað spila fleiri leiki fyrir þennan leik en þegar maður er á vellinum er maður dæmdur eins og maður sé í sínu besta leikformi.
Mér líður bara fínt þannig að það er spennandi að klára þetta á þriðjudaginn og gera þetta almennilega,“ sagði Alfreð að lokum í samtali við mbl.is.
Ísland mætir Portúgal í undankeppni EM 2024 næstkomandi þriðjudagskvöld.