Bið ekki um treyju Ronaldos í þetta skiptið

Aron Einar Gunnarsson reynir að þakka Cristiano Ronaldo fyrir leikinn …
Aron Einar Gunnarsson reynir að þakka Cristiano Ronaldo fyrir leikinn á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það ekki standa til að óska eftir keppnistreyju Cristiano Ronaldo eftir leik Íslands og Portúgals á Laugardalsvelli annað kvöld.

Síðast þegar liðin mættust var á EM 2016, í fyrsta leik karlalandsliðsins á stórmóti. Lauk honum með 1:1-jafntefli.

„Þetta var fyrsti leikur okkar á stórmóti. Það var ákveðin pressa fyrir leikinn og tilhlökkun. Við spiluðum mjög góðan og agaðan leik.

Við vorum náttúrlega að mæta mjög sterku liði sem tók sig svo til og vann keppnina. Það eru góðar minningar en þetta er allt annað dæmi á morgun,“ sagði Aron Einar á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Frægt varð þegar Cristiano Ronaldo neitaði Aroni Einari um að skiptast á keppnistreyjum eftir leikinn á EM 2016. Aðspurður sagði hann ekki standa til að biðja Ronaldo um treyjuna á morgun.

„Það hlaut að koma að þessu! Nei, ég held að ég sleppi því. Ég held að hann ætli líka ábyggilega að eiga þessa treyju því þetta er 200. leikurinn hans. Ég held að ég sleppi því í þetta skiptið,“ sagði Aron Einar og hló.

Smá sjokkeraður á þeim tíma

Ronaldo lét einnig hafa eftir sér eftir jafnteflið á móti Íslandi að það væri til marks um hugarfar smárra liða að fagna stigi. Aron Einar sagði íslensku leikmennina ekki líta til þeirra ummæla til þess að hvetja liðið til dáða að þessu sinni.

„Nei, ekkert þannig. Við kannski nýttum okkur þetta aðeins á Evrópumótinu sjálfu en ekki núna. Á þeim tíma var maður smá sjokkeraður yfir þessum ummælum af því að þetta var svo stórt og mikið fyrir okkur, að ná jafntefli á móti svona stóru liði.

En við erum ekkert að fara að ræða það eða líta til baka á það núna. Þetta er allt annað dæmi á morgun. Við þurfum að gera allt 100 prósent til þess að fá eitthvað út úr þeim leik, við áttum okkur alveg á því,“ sagði hann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert