Íslenska U21-árs landsliðið í knattspyrnu karla vann dramatískan 1:0-sigur á jafnöldrum sínum frá Ungverjalandi í vináttulandsleik á Bozsik-vellinum í Búdapest í kvöld.
Bæði lið fengu fjölda góðra færa til þess að brjóta ísinn en illa gekk að koma boltanum í markið.
Ungverjar björguðu skoti frá Kristali Mána Ingasyni rétt fyrir framan marklínuna á meðan Ólafur Kristófer Helgason varði nokkrum sinnum frábærlega frá Ungverjum í marki Íslands.
Ellefu mínútum fyrir leikslok fékk leikmaður Ungverjalands sitt annað gula spjald og þar með rautt. Lék íslenska liðið því einum fleiri það sem eftir var.
Þegar stefndi í markalaust jafntefli tókst Danijel Dejan Djuric, sóknarmanni Víkings úr Reykjavík, hins vegar að skora sigurmarkið í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Danijel fékk þá frábæra fyrirgjöf frá hægri yfir á fjærstöngina og skoraði með föstum skalla niður í nærhornið af stuttu færi.
Markið kom á annarri mínútu uppbótartíma og nægði til sigurs. Þetta var fyrsta mark Danijels fyrir U21-árs liðið í hans fjórða leik.