Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sér fram á að geta nýtt Jóhann Berg Guðmundsson enn betur á miðjunni þegar liðið fær Portúgal í heimsókn annað kvöld.
Jóhann Berg lék á miðri miðjunni í 1:2-tapi fyrir Slóvakíu á laugardag og komst vel frá sínu.
„Það vilja allir hafa hann meira í boltanum en þeir leikmenn sem voru mest með boltann gegn Slóvakíu voru Willum [Þór Willumsson] og Albert Guðmundsson þegar við vorum að spila á milli línanna.
Við vitum að ef við komum boltanum á Jóhann fáum við eitthvað skapandi út úr því. Þannig var leikurinn gegn Slóvakíu en kannski fáum við að sjá eitthvað öðruvísi á morgun þar sem Portúgal pressar ekki af jafn mikilli ákefð og Slóvakía gerði.
Þannig ætti hann að fá meiri tíma á boltanum og það ætti að gagnast okkur vel. Við munum spila með tvo djúpa miðjumenn, þeir þurfa að vera aftar á vellinum og læstir fyrir framan vörnina þar sem það eru fleiri skapandi leikmenn hjá Portúgal.
Þess vegna höfum við ákveðið að nota hann þarna, vegna þekkingar hans á leiknum og reynslunni sem hann býr yfir,“ útskýrði Hareide á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.