Cristiano Ronaldo, fyrirliði og stærsta stjarna portúgalska landsliðsins í knattspyrnu, segir íslenska landsliðið vera með gott lið.
„Ég býst við erfiðum leik. Þeir eru með mjög gott lið að mínu mati, sterkt lið.
Þegar Ísland spilar á heimavelli er alltaf erfitt að vinna þá en ég hef trú á okkar liði og okkar leikmönnum,“ sagði Ronaldo á blaðamannafundi portúgalska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
Leikur Íslands og Portúgals er liður í undankeppni EM 2024 og fer fram klukkan 18.45 á Laugardalsvelli annað kvöld. Uppselt er á leikinn.
„Við vitum hvers ætlast er til að við gerum á vellinum til þess að skora mörk. Ég vona að hlutirnir fari á þann veg sem við óskum.
Ég veit að það verður erfitt en ég tel að við í Portúgal eigum að sýna að við séum með betra lið en þeir,“ bætti Ronaldo við.
Hann leikur sinn 200. A-landsleik fyrir Portúgal annað kvöld og verður þá fyrsti karlinn til þess að afreka það.