Arnór Ingvi Traustason lék vel á miðri miðjunni hjá Íslandi þegar liðið tapaði 0:1 fyrir Portúgal í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld.
„Líðanin er eiginlega ekki góð. Þetta er mjög svekkjandi og heppnin einhvern veginn ekki okkar megin í þessu verkefni. En góðar frammistöður hjá mörgum og liðinu í báðum þessum leikjum.
Það er stígandi í þessu hjá okkur og stöðugleiki sem við erum að sýna. Þannig að það er alveg eitthvað sem við getum byggt ofan á. En það er mjög svekkjandi að fara með 0 stig út úr þessu verkefni,“ sagði Arnór Ingvi í samtali við mbl.is eftir leik.
Aðspurður kvaðst hann ánægður með eigin frammistöðu á miðsvæðinu í kvöld.
„Já, ég er gífurlega sáttur. Mér leið mjög vel inni á vellinum og fékk mikla hjálp frá liðinu, það var góð holning á liðinu, sem náði að gera mér auðvelt fyrir.“
Arnór Ingvi var annar af djúpum miðjumönnum ásamt Jóhanni Berg Guðmundssyni. Hann hefur spilað þessa stöðu allt yfirstandandi tímabil með félagsliði sínu, Norrköping í Svíþjóð.
„Já, við erum búnir að vera að spila 4-2-3-1 í vetur. Ég er mjög vanur að spila þessa stöðu.“
Spurður hvort hann hefði séð umdeilt sigurmark Portúgals aftur sagði Arnór Ingvi:
„Ég sá einhverja endursýningu af þessu þar sem tveir eru að koma úr rangstöðu og einn þeirra fer í bakið á Herði [Björgvini Magnússyni]. En ég veit ekki, ég er ekki VAR-dómari og get ekki sagt til um þetta!“
Hann tjáði sig þá um síðara gula spjaldið sem Willum Þór Willumsson fékk og þar með rautt.
„Tveir fara í tæklingu, annar leggst og vælir en hinn ekki.“
Arnór Ingvi sagði ekkert í leik Portúgals hafa komið íslenska liðinu á óvart.
„Nei, ekkert þannig. Þeir eru náttúrlega góðir í fótbolta og líður vel með boltann en voru einhvern veginn ekkert að skapa mikið.“
Útlitið í J-riðlinum er orðið nokkuð dökkt en Njarðvíkingurinn sagði að það eina sem Ísland gæti gert úr þessu væri að byrja að vinna leiki.
„Við fáum 0 stig út úr þessu verkefni og erum að gera okkur erfiðara fyrir. Við þurfum að fara að vinna fótboltaleiki til þess að eiga séns á einhverju.
Ég er ekki búinn að skoða hvernig hinir leikirnir fóru en við þurfum bara að einblína á okkur núna, að hætta að treysta á aðra og fara að vinna leiki,“ sagði Arnór Ingvi að lokum.