Breiðablik, eða það lið sem vinnur forkeppnina á Kópavogsvelli í lok mánaðarins, mætir írska liðinu Shamrock Rovers í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu.
Dregið var til fyrstu umferðarinnar í höfuðstöðvum UEFA í dag en 62 lið leika í umferðinni sem verður spiluð dagana 11/12. júlí og 18/19. júlí.
Ef Blikar vinna forkeppnina, þar sem þeir mæta fyrst Tre Penne frá San Marínó 27. júní og síðan Buducnost frá Svartfjallalandi eða Atlétic Club d'Escaldes frá Andorra 30. júní, fara þeir áfram í fyrstu umferðina og mæta Shamrock Rovers.
Ef þeir vinna ekki forkeppnina fara þeir hins vegar yfir í 2. umferð í Sambandsdeildinni.
Drátturinn verður að teljast hagstæður fyrir Breiðablik en róður Kópavogsliðsins hefði orðið þyngri gegn Ferencváros frá Ungverjalandi eða Ludogorets frá Búlgaríu, sem voru einnig í efri styrkleikaflokknum í riðli Breiðabliks.