Einungis einn leikmaður í efstu deildum karla og kvenna var úrskurðaður í leikbann þegar aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman á fundi í dag.
Sá leikmaður var úrskurðaður í eins leiks bann vegna brottvísunar í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu.
Þar er um að ræða Shainu Ashouri, sóknarmann FH, sem fékk tvö gul spjöld og þar með rautt í 3:1-sigri Hafnarfjarðarliðsins á ÍBV í Vestmannaeyjum í fjórðungsúrslitum bikarsins í síðustu viku.
Ashouri tekur því út leikbann þegar FH fær Víking úr Reykjavík í heimsókn á Kaplakrikavöll í undanúrslitum bikarkeppninnar í lok mánaðarins.