Ekkert annað í boði

Jóhann Berg Guðmundsson tekur í spaðann á Cristiano Ronaldo.
Jóhann Berg Guðmundsson tekur í spaðann á Cristiano Ronaldo. Eyþór Árnason

„Þetta er ótrúlega svekkjandi,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld, í samtali við mbl.is eftir súrt 1:0-tap gegn Portúgal í undankeppni EM í knattspyrnu. 

„Mér fannst við spila hörku vel í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við áttum mjög góða spilkafla og pressan hjá okkur var góð. Við vorum einnig mjög þéttir.

Þeir voru ekki að skapa sér mikið af færum, þannig að það var hrikalega erfitt að fá þetta mark á sig,“ sagði Jóhann um úrslitin. 

„Við tökum fullt af jákvæðum punktum úr þessu þótt það sé að sjálfsögu svekkjandi að taka núll stig úr þessum landsleikjaglugga. Við verðum bara að líta á það jákvæða í þessu, það er ekkert annað að gera. 

Það er sumt sem við þurfum að laga í næsta glugga, þar sem við þurfum að taka sex punkta, það er ekkert annað í boði,“ bætti Jóhann við. 

Hvað þurfið þið að gera til að breyta þessum góðu frammistöðum í sigra? 

„Það er bara svona smá klaufagangur hjá okkur. Þrjú klaufamörk sem við getum alveg komið í veg fyrir og vonandi gerum við það í næsta glugga. 0:0 í þessum leik hefði verið mjög góð úrslit fyrir okkur. 

Svo á móti Slóvakíu fengum við bara tvö ótrúlega klaufaleg mörk á okkur og við verðum að læra af því.“

Hörður Björgvin Magnússon tekur innkast fyrir framan pakkaðan Laugardalsvöll.
Hörður Björgvin Magnússon tekur innkast fyrir framan pakkaðan Laugardalsvöll. Eyþór Árnason

Laugardalsvöllurinn var fullur í kvöld. Jóhann hefur ófáum sinnum spilað fyrir fullan völl, en þetta var fyrsta skiptið í dágóðan tíma. Jóhann segir að til að liðið standi sig sem best verði þetta alltaf að vera svona, sama hver mótherjinn sé. 

„Það er æðislegt. Stuðningsmennirnir gefa okkur gríðarlega mikið og ég held að það hafi sést í kvöld. Við þurfum þennan stuðning á hvern einasta heimaleik, hvort sem Portúgal sé að koma eða Liechtenstein. 

Við viljum frábæra stemningu og byggja þetta aftur upp svo við getum náð í fullt af punktum á heimavelli,“ sagði Jóhann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert