„Frá mér séð fer hann í boltann“

Alfons Sampsted gengur að svekktum Guðlaugi Victori Pálssyni í leikslok.
Alfons Sampsted gengur að svekktum Guðlaugi Victori Pálssyni í leikslok. mbl.is/Eyþór Árnason

Alfons Sampsted kom inn á sem varamaður í 0:1-tapi Íslands fyrir Portúgal í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er svekkjandi. Það má hver segja það sem hann vill um þetta mark. Ég er búinn að sjá þetta einu sinni aftur og það er mjög mikið matsatriði hvort þetta sé rangstaða eða ekki.

Sá sem fær boltann er ekki rangstæður en það eru klárlega menn þarna fyrir innan sem hafa áhrif á leikinn. En fyrst og fremst er þetta svekkelsi,“ sagði Alfons í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann var í grennd við Willum Þór Willumsson á hægri kantinum þegar sá síðarnefndi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

„Hann er náttúrlega á hægri kantinum fyrir framan mig. Að mínu viti fer hann bara í tæklinguna og boltinn og maðurinn fara í rauninni báðir niður.

Frá mér séð fer hann í boltann en það er svolítið erfitt að segja það út frá þessu eina sjónarhorni,“ sagði hægri bakvörðurinn um það hvernig síðara gula spjaldið hafi horft við honum.

Liðið á leið í rétta átt

Þrátt fyrir tapið lék íslenska liðið vel í kvöld.

„Ég hugsa að við og mjög margir í stúkunni séum sammála um það að liðið er á leið í frekar góða átt akkúrat núna. Við getum byggt ofan á þetta fyrir næstu leiki í næsta glugga. Það gæti verið frekar spennandi,“ sagði Alfons.

Hann sagði lítið hafa komið á óvart í leik portúgalska liðsins.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Þetta var frekar vel leikgreint hjá þjálfurunum ef ég segi eins og er. Við bjuggumst kannski við því að það yrði aðeins meira tempó á boltanum hjá þeim.

Þeir voru frekar spenntir fyrir því að við myndum stíga út úr pressunni án þess að þeir þyrftu að hreyfa boltann. Við gerðum lítið af því og þar af leiðandi voru sjaldan glufur fyrir aftan okkur,“ útskýrði Alfons.

Frábært fyrir okkur

Spurður hvort honum þætti þegar mega greina handbragð Åge Hareide landsliðsþjálfara á liðinu sagði Alfons:

Já, klárlega. Hann er náttúrlega búinn að fá um tíu æfingar með okkur og svipað marga fundi. Að koma liðinu svona samstilltu fyrir þessa tvo leiki var virkilega vel gert og spennandi að sjá hvað við getum bætt ofan á þetta fyrir næsta glugga“

Ísland er aðeins með þrjú stig að loknum fjórum umferðum í J-riðlinum en Alfons telur það góðs viti að önnur lið séu að reita stig af hverju öðru.

„Svo virðist sem að akkúrat núna sé riðillinn svolítið leikur hvers sem er, sem er frábært fyrir okkur þar sem við höfum ekki sótt okkur það mörg stig.

Vonandi halda hin liðin, Lúxemborg, Slóvakía, Bosnía og jafnvel Liechtenstein, áfram að plokka stig af hverju öðru. Það væri frábært fyrir okkur ef við náum að snúa þessu okkur í vil héðan í frá,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert