„Þetta er mjög mikið svekk,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap liðsins gegn Portúgal í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.
Cristiano Ronaldo skoraði sigurmark portúgalska liðsins á 89. mínútu, eftir hetjulega baráttu íslenska liðsins.
„Við áttum meira skilið en í lok dags eru þetta smáatriði. Á móti svona góðum liðum eru það smáatriðin sem kosta.“
„Við erum þreyttir og manni færri í endann og við verðum að stíga upp sem lið, áður en sendingin kemur. Við spilum hann svo réttstæðan og þetta voru smáatriði,“ sagði Guðlaugur.
Willum Þór Willumsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lokin og kom sigurmark portúgalska liðsins skömmu síðar.
„Ég veit það ekki. Hann er á gulu og fer í svona tæklingu og það er ekki sniðugt. Willum er búinn að vera frábær í þessum glugga og ég er stoltur af honum. Ég hef fengið helling af rauðum spjöldum á mínum ferli og þetta gerist. Það er ekkert við hann að sakast,“ sagði hann.