Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var ósáttur með seinna gula spjaldið sem Willum Þór Willumsson fékk í leik Íslands og Portúgals í J-riðli undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.
Willum fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 81. mínútu fyrir brot á Diogo Dalot, bakverði Portúgala.
Átta mínútum síðar skoraði svo Cristiano Ronaldi sigurmark leiksins og lokatölur á Laugardalsvelli urðu 1:0, Portúgal í vil.
„Mér fannst þetta leikaraskapur því hann meiddi sig nánast ekki neitt,“ sagði Hareide.
„Willum fór í boltann og þetta leit mun verr út en þetta var. Dómarinn gaf honum gult því Portúgalarnir settu pressu á hann.
Mér fannst Willum reyna við boltann og hann fór í boltann,“ bætti norski þjálfarinn við.