Óheimilt að áframselja miða í hagnaðarskyni

Íslenskir knattspyrnuunnendur eru eflaust spenntir fyrir því að bera Cristiano …
Íslenskir knattspyrnuunnendur eru eflaust spenntir fyrir því að bera Cristiano Ronaldo augum. mbl.is/Eyþór Árnason

Líkt og mbl.is greindi frá í dag reyna íslenskir knattspyrnuunnendur nú að festa kaup á miðum á leik Íslands og Portúgals í undankeppni karla fyrir EM 2024, sem fram fer í kvöld.

Ýmsir þeirra segjast reiðubúnir að greiða fúlgur fjár til þess að verða sér úti um miða, en uppselt er á leikinn á Laugardalsvelli og hefur raunar verið í tvær vikur.

Tix.is sér um miðasölu á leiki íslenska landsliðsins og þar stendur skýrum stöfum í skilmálum við miðakaup:

„Ekki er heimilt að áframselja miða með fjárhagslegum hagnaði. Ef miði er seldur með fjárhagslegum hagnaði fyrir annan aðila en aðstandenda viðburðar, þá áskilur Tix Miðasala sér rétt til að ógilda miðann með öllu.“

Því væri það að öllum líkindum ekki til neins fyrir ofangreinda knattspyrnuunnendur að kaupa miða á leikinn á yfirverði þar sem vænta mætti þess að þeir yrðu tafarlaust felldir úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert